Mánudagur 22. desember 1997

356. tbl. 1. árg.

Afstaða Vinnuveitendasambands Íslands í lífeyrismálum hefur vakið furðu margra sem tengjast atvinnurekstri og atvinnulífinu með einum eða öðrum hætti. VSÍ hefur að undanförnu staðið dyggan vörð um núverandi kerfi, sem felur í sér skylduaðild að tilteknum lífeyrissjóðum. Hafa VSÍ og ASÍ talað einni röddu í þessu máli og má vart milli sjá hvorir hafa gengið lengra í forsjárhyggjunni, talsmenn atvinnurekenda eða verkalýðsrekenda.

Á árinu sem nú er að líða, hefur verið gerð ákveðin tilraun til að ná fram breytingum á kerfinu, sem leitt gætu til aukins valfrelsis launþega í lífeyrismálum, samkeppni milli lífeyrissjóða og fjölgunar þeirra valkosta, sem fyrir hendi eru á þessum markaði. Hagsmunasamtökin við Garðastræti og Grensásveg hafa hins vegar hamast gegn þessum breytingum og hafa í raun fengið því framgengt, að einungis verða gerðar smávægilegar lagabreytingar, sem leiða til aukins valfrelsis hjá tiltölulega litlum hópi fólks, trúlega mest í hópi stjórnenda og þeirra sem eru sjálfstætt starfandi. Sá yfirgnæfandi meirihluti launþega, sem neyddur er til aðildar að stéttarfélögum með forgangsréttarákvæðum kjarasamninga, mun eftir sem áður ekki eiga neitt val um lífeyrissjóði.

En það nægir ekki að standa utan stéttarfélaganna. Þeir launþegar, sem ráðnir eru á kjörum sem byggð eru á kjarasamningi viðkomandi starfsstéttar, munu líka verða skyldaðir til aðildar að tilteknum sjóðum. Trésmiður utan stéttarfélags, sem ráðinn er til starfa hjá verktakafyrirtæki utan VSÍ, getur m.ö.o. lent í því að vera með dómi knúinn til að greiða í lífeyrissjóð, sem Trésmiðafélagið og VSÍ hafa samið um, ef hann er svo óheppinn að ráðningarsamningur hans og vinnuveitanda hans er byggður á hinum almenna kjarasamningi trésmiða og vinnuveitenda. Verkalýðshreyfingin og VSÍ munu þannig áfram hafa tækifæri til að semja sín á milli um ráðstöfun réttinda einstaklinga, sem ekki eru félagsbundnir hjá þeim né standa í neinu samningssambandi við samtökin.

Umræður um aðild Íslands að ESB hafa sem betur fer fengið góða hvíld að undanförnu. Stuðningsmenn hugmyndarinnar virðast vera að átta sig á því, að þegar á allt er litið væri ekkert upp úr aðild að hafa fyrir Íslendinga. Þó kann að vera að stuðningur við aðild hafi aukist á dögunum í hópi stuðningsmanna R-listans þegar allir 600 þingmenn Evrópuþingsins fengu nefnilega milljón króna einkasalerni til afnota. Þarna er loksins kominn alvöru klósettskattur og aðdáendur slíkra skatta hljóta að fyllast gremju að fá ekki að taka þátt í greiðslunni.