Helgarsprokið 21. desember 1997

355. tbl. 1. árg.
   Til vinstri getur að líta ritstjórann Össur. Hann er frjáls og óháður þingmanninum Össuri (sem er í miðið) og er fólk beðið að rugla þeim ekki saman. Nánar er fjallað um þá báða hér að neðan. Við hlið þeirra er maður sem VÞ gat ekki borið kennsl á, en hann tengist hinum tveimur ekki með nokkrum hætti svo vitað sé.

Í nýútkomnu tölublaði Mannlífs er athyglisverð grein um valdatöku Össurar Skarphéðinssonar á DV. Þar er leitað álits nokkurra fjölmiðlamanna og stjórnmálaskýrenda á þeirri sérkennilegu stöðu, sem þessi þingmaður Alþýðuflokksins er nú kominn í.

Það er skemmst frá því að segja, að flestir eru viðmælendur Mannlífs afar efins um að þingmennskan og ritstjórahlutverkið fari saman, einkum með tilliti til þess að hin pólitísku afskipti Össurar geti dregið úr trúverðugleika blaðsins sem „frjáls og óháðs“ dagblaðs. Þannig segir t.d. Páll Magnússon á Stöð 2 það vera skoðun sína að það sé rangt í „prinsíppinu“ að þingmaður ritstýri blaði sem kynnir sig með slíkum hætti. Mörður Árnason, gamall vinur og baráttufélagi Össurar, segir að almennt sé ekki heppilegt að stjórnmálamenn fáist við ritstjórn eða fréttastjórn á fjölmiðli, nema þá á fjölmiðlum sem hafa yfirlýsta pólitíska stefnu eða hlutverk. Kristján Þorvaldsson á Séð og heyrt telur að Össur hafi fallið á fyrsta prófinu sem hann gekk undir sem ritstjóri „frjáls og óháðs“ blaðs með svokölluðum fréttaskýringum sínum fyrir landsfund Alþýðubandalagsins og Hrafn Jökulsson, sem eitt sinn var einn helsti stuðningsmaður Össurar, segir það að hann skuli hafa ráðið sig til þessa starfs óþolandi siðleysi og dómgreindarskort, ellegar hugsunarhátt sem betur hæfi mafíósum í bananalýðveldum en kjörnum fulltrúa á löggjafarsamkomunni.

Páll Vilhjálmsson, fyrrum ritstjóri Vikublaðsins (sem Alþýðubandalagið gaf út) og Helgarpóstsins (sem Alþýðubandalagið átti), telur að þarna sé um að ræða afturhvarf til flokksblaðamennsku fyrri tíma (sem Páll ætti að þekkja vel af eigin raun). Undir þetta tekur Ólafur Þ. Harðarson, stjórnmálafræðingur, sem segir jafnframt að flokksblaðafyrirkomulagið hafi verið vont fyrirkomulag. Elías Snæland Jónsson, sem nýorðinn er ritstjóri á Degi (og þar með starfsmaður sömu aðila og Össur) tekur ekki djúpt í árinni í svari sínu, heldur lætur nægja að segja, að Össur gæti þurft að velja milli þingmennskunnar og ritstjórnarinnar. Ólafur G. Einarsson, forseti Alþingis, lætur nægja að benda á að þingið geti ekki sett mönnum neinar reglur um störf utan þingsins. Össur sjálfur segir að sér gangi vel að samræma störfin enda mæti hann snemma til vinnu og fari seint heim á kvöldin. Hann viðurkennir en að hann þurfi að gæta sín á því að misnota ekki aðstöðu sina, en virðist almennt ekki hafa áhyggjur af því að pólitísk staða sín veiki trúverðugleika blaðsins.

Greinin sem hér er vitnað til er skrifuð af tveimur blaðamönnum, Róberti Marshall og Karli Th. Birgissyni. Báðir hafa verið taldir standa nærri Össuri í pólitík. Karl hefur að vísu ekki haft bein afskipti af flokkspólitísku starfi um langt skeið en Róbert hefur verið í hópi þeirra ungu Alþýðubandalagsmanna, sem hafa verið hvað áhugasamastir um að sameinast Össuri og félögum hans í Alþýðuflokknum. Össur er reyndar sjálfur fyrrverandi forystumaður í Alþýðubandalaginu í Reykjavík og hefur verið mikill sameiningarsinni frá því að Kratar buðu fram í borgarstjórnarkosningum í Reykjavík árið 1990 undir dulnefninu „Nýr vettvangur“.

Þeir Róbert og Karl spyrja sjálfir margra spurninga í sambandi við ráðningu Össurar í löngum inngangi sínum að greininni. Þar koma ýmsir athyglisverðir punktar fram, svo sem spurningin um hvort DV verði trúverðugt í kosningabaráttunni fyrir borgarstjórnarkosningarnar í vor þegar litið er til þess að að Össur hefur frá upphafi verið einn helsti stuðningsmaður R-listans (hann er reyndar einnig svili Ingibjargar Sólrúnar). Þá er bent á að árekstrar milli þingmennskunnar og frjálsrar og óháðrar ritstjórnarstefnu verði enn augljósari þegar kemur að alþingiskosningum 1999. Hins vegar er bent á að Össur sé ekki einn um að vera í sérkennilegri stöðu þegar líður að kosningum, því ritstjóri Dags, Stefán Jón Hafstein, sitji sem sérlegur trúnaðarmaður borgarstjóra í æðsta herráði R-listans, sem hingað til hafi virkað sem kosningastjórn hans. Er vakin athygli á því, að ýmsum brygði í brún ef Páll Magnússon tæki sæti í kosningastjórn Sjálfstæðisflokksins jafnframt því að halda áfram sem fréttastjóri á Stöð 2.

Þessar hugleiðingar Karls og Róberts eru sérlega athyglisverðar í ljósi þess að þeir þekkja báðir vel til í röðum sameiningarsinna á vinstri vængnum og fara vart með fleipur í þessum efnum. Vef-Þjóðviljinn hlýtur að taka undir með þeim að ástæða er til að hafa áhyggjur af því að fréttaflutningur vissra blaða fyrir næstu kosningar verði ansi litaðar af stöðu ritstjóranna.