Laugardagur 20. desember 1997

354. tbl. 1. árg.

Guðný Guðbjörnsdóttir, annar af hverfandi þingmönnum Kvennalista, leggur nú til á Alþingi að ráðamenn verði settir í einhvers konar jafnréttisskóla. Nú er að vísu hæpið að efast um þekkingu Guðnýjar á gildi slíkrar skólasetu eftir að hafa heyrt hana í þættinum Á elleftu stundu ræða um það hversu mikill námsmaður hún hafi verið og hversu „hámenntuð“ hún og eiginmaður hennar eru. Þó telur VÞ að hugmyndir hennar um að „beita kynjaðri hugsun“ við landsstjórnina yrðu ekki til bóta. Líklegra er að þetta mundi bara auka á þá kynlegu hugsun sem oft einkennir t.d. ræðuhöld Alþingis. Beiting heilbrigðrar hugsunar væri aftur á móti oft vel þegin.

Sjómannaafslátturinn hefur verið nokkuð til umræðu upp á síðkastið, aðallega vegna yfirvofandi verkfalls sjómanna en einnig vegna frumvarps Péturs H. Blöndals alþingismanns um afnám hans í áföngum fram að aldamótum. Í umræðum á Alþingi í lok október kom einn af varðhundum þessara forréttinda sjómanna, Guðjón Guðmundsson þingmaður Sjálfstæðisflokks, í pontu og taldi að svo margt þyrfti að laga í skattkerfinu að „fráleitt [væri] að ætla að taka þennan eina þátt út úr“. Þetta eru dæmigerð rök þeirra sem hafa slæman málstað að verja, þeir reyna að flækja málin endalaust þar til engin leið er að hreyfa við neinu.

Mýmörg önnur dæmi eru um þess háttar málflutning. Þannig má aldrei skera niður nokkurs staðar í ríkisgeiranum vegna þess að alltaf má benda á eitthvað sem frekar má missa sín og þá segja talsmenn þrýstihópanna að það verði að „byrja á byrjuninni“ eða eitthvað í þeim dúr. Ekki má draga úr útgjöldum til menningarmála vegna þess að lambaket er niðurgreitt um milljarða og það er ekki eins merkilegur málstaður. Ekki má spara í vegagerð á landsbyggðinni af því að sett er fé í menningarstofnanir og vegirnir eru svo mikilvægir. Svona heldur vitleysan áfram koll af kolli þar til niðurstaðan verður sú sem allir þekkja: Ríkisútgjöld vaxa undantekningarlaust ár frá ári.