Föstudagur 19. desember 1997

353. tbl. 1. árg.

Niðurstaða nýrrar skoðanakönnunar Gallup hlýtur að vera Birni Bjarnasyni menntamálaráðherra töluvert áhyggjuefni. Hann er óvinsælastur ráðherra Sjálfstæðisflokksins með einungis 35,6% fylgi (var 39,4% í apríl) á meðan Davíð Oddsson fær 74,4% og Halldór Blöndal 54,6%. Nú er vitaskuld erfitt að segja til um það nákvæmlega hvað veldur þessu slaka gengi, en VÞ leyfir sér að benda ráðherranum á nokkur mál sem kynnu að styrkja stöðu hans:

Björn getur

… beitt sér fyrir því að stúdentar geti valið um það hvort þeir eru í Stúdentaráði HÍ eða ekki.

… ýtt hugmyndum um fjáraustur í tónlistarhús úr tómum sjóðum út af borðinu.

… stuðlað að fjölgun einkaskóla á kostnað ríkisskóla, t.d. með ávísanakerfi.

… selt RÚV, þar sem fjölmiðlun á ekki heima í höndum ríkisins.

… hætt við flutning Ríkissjónvarpsins og sparað þannig einn til tvo milljarða króna.

… verið ötulli talsmaður frelsis og ráðdeildar, eins og hann var meðan hann var óbreyttur þingmaður.

„Samtök um þjóðareymd“ er fyrirsögn á grein sem birtist í Mogganum fyrir rúmri viku og er eftir Daníel Sigurðsson kennara við Vélskólann. Daníel skrifar stöku sinnum athyglisverðar greinar, síðast um Vikartindsmálið, en að þessu sinni fjallaði hann um auðlindaskatt eins og sjá má af fyrirsögninni. Hann segir m.a.: „Þegar sóknardagakerfið hafði verði afnumið og kvótakerfi með framseljanlegar aflaheimildir komið á féll markaðsverð sjálfra skipanna og bátanna og mörg fleytan varð nánast verðlaus. Þetta var það gjald sem útgerðarmenn í raun greiddu fyrir framseljanlegar aflaheimildir.“ Hann bendir svo á að þess vegna sé tal um „gjafakvóta“ rangnefni. Seinna í greininni segir hann: „Hugmyndin að veiðigjaldi eða sértækum skatti er hvorki skynsamleg né frumleg. Hún er eldgamall uppvakningur sóttur í óréttlátt verðlagskerfi einokunarverslunar Dana á Íslandi en þar fór hluti af útflutningsverðmæti fiskafurða í eins konar útflutningsuppbætur landbúnaðarafurða sem leiddi til þess að útgerð drabbaðist niður og eymd þjóðarinnar hélt áfram að vaxa.“ Það skal tekið undir með Daníel að Samtök um þjóðareymd er mun eðlilegra nafn en Samtök um þjóðareign á samtök sem þó ganga undir því nafni.

Margir þeirra sem berjast fyrir hækkuðum sköttum með álagningu auðlindaskatts viðurkenna að um skattahækkun væri að ræða og telja sig einfaldlega vita best hvernig fjármununum megi koma í lóg. Við öðru er ekki að búast af forsjárhyggjumönnum. En sumir virðast halda að aðrir skattar yrðu lækkaðir sem nemur álagningu auðlindaskattsins. Þá einstaklinga býður VÞ velkomna til Jarðarinnar og fagnar um leið að loks skuli hafa fengist sönnun fyrir lífi á öðrum hnöttum.