Fimmtudagur 18. desember 1997

352. tbl. 1. árg.

Í Degi-Tímanum s.l. þriðjudag er fréttaskýring þar sem rætt er við Pál Berþórsson, fyrrum veðurstofustjóra, sem telur gróðurhúsaáhrifin hafa leitt til hlýnunar hér. Hann fer almennum orðum um hlýindin síðustu ár en tekur fram að gróðurhúsaáhrifin séu ekki mikil. Í fréttaskýringunni er einnig rætt við Unni Ólafsdóttur, veðurfræðing á Veðurstofunni. Hún segir hins vegar aðspurð um hvort allt sé að fara til fjandans vegna gróðurhúsaáhrifa: „Það eru mjög skiptar skoðanir um gróðurhúsaáhrifin. Nei, ég held ekki. Það er talað um hitasveiflur á löngum tíma en enn sem komið er höfum við mjög stutt skeið til að miða við. Það verða alltaf sveiflur í veðrinu og ég tel ennþá allt innan eðlilegra marka. Það er óþarfi að hrópa alltaf „úlfur, úlfur“ þegar eitthvað sérstakt gerist. Ég held að landsmenn ættu bara að brosa vegna hlýindanna. Rokið er verst.“ Í ljósti þessara ummæla er stríðsfyrirsögn fréttaskýringarinnar „Greinileg gróðurhúsaáhrif“ undarleg en lýsir vel fréttaflutningi af þessu máli. Það virðast allir blaðamenn sannfærðir um að stríðsfyrirsagnir selji og að fólk kæri sig ekkert um vandaða fréttamennsku.

Fréttamenn og aðrir sem vilja kynna sér hitabreytingar á Jörðinni gætu t.d. kíkt í skýrslu Patrick J. Michaels, prófessors í umhverfisvísindum við University of Virginia. Þar má m.a. lesa um gervitunglamælingar á hita andrúmsloftsins sem hófust árið 1979 og sýna marktæka lækkun eins og grafið hér að neðan ber með sér. Samkvæmt líkönum fylgismanna gróðurhúsaguðsins hefði aftur á móti átt að hitna um 0,6°C á þessu tímabili.

Elsa B. Valsdóttir flytur pistla annan hvern þriðjudagsmorgun upp úr 8:30 á Rás 2. Pistlarnir hafa vakið nokkurt umtal og hafa vakið hlustendur til umhugsunar um hlutverk ríkisins. Þeir sem kunna betur við að sofa út en kveikja á Ríkisútvarpinu geta skoðað þá hér.