Miðvikudagur 17. desember 1997

351. tbl. 1. árg.

Tveir alþingismenn, Ragnar Arnalds og Sturla Böðvarsson, voru í þættinum Sunnudagskaffi á Rás 2 síðastliðinn sunnudag undir stjórn Kristjáns Þorvaldssonar. Ríkisútvarpið auglýsir þáttinn undir slagorðinu. „Þátturinn sem vitnað er í,“ svo ekki er úr vegi að gera það hér á síðum VÞ. Ríkisfjármál voru mjög til umfjöllunar hjá alþingismönnunum tveimur enda fjárlagaumræðan í algleymingi í þinginu en þá vaka þingmenn fram á nætur við að skipta á milli sín þeim tekjum, sem talið er að Íslendingar muni vinna sér inn á næsta ári. Þegar leið á spjall þingmannanna kom að því að þeim fannst þeir ekki ráða yfir nógu stórum hluta tekna landsmanna og farið var að ræða leiðir til að bæta úr því. Það kom svo sem ekki á óvart að þingmaður Alþýðubandalagsins lýsti yfir þeirri skoðun sinni að sjálfsagt væri að hækka skatta og kom hann með nokkrar frískar hugmyndir í þeim efnum. Taldi hann m.a. rétt að hækka fjármagnstekjuskatt. Ýmsir hefðu haldið að þingmaður Sjálfstæðisflokksins myndi snúast öndverður gegn skattahækkanahyggjunni og blása á allar slíkar hugmyndir. Það gerði Sturla þó ekki og sagði hreykinn frá því að sjálfstæðismenn hefðu staðið að álagningu fjármagnstekjuskatts en vinstri menn hefðu ekki treyst sér til þess á meðan þeir voru við stjórnvölinn. Það telst víst fokið í flest skjól þegar sjálfstæðismenn hreykja sér sérstaklega af nýjum sköttum.

Opinberum starfsmönnum hefur fjölgað gífurlega síðustu ár og áratugi og er nú svo komið að fimmti hver vinnandi maður er á launaskrá hins opinbera. Eins og sjá má á meðfylgjandi línuriti er þetta tvöföldun frá því fyrir um 30 árum.

Haldi tvöföldunin áfram að verða á 30 ára fresti (sem er harla ólíklegt þrátt fyrir framgöngu margra stjórnmálamanna) mun síðasta einkafyrirtækið hverfa fyrir lok næstu aldar. Ef vilji er hins vegar fyrir hendi er hægt að snúa til baka, minnka umsvif ríkisins og lækka skatta. Þá er góð von til að ótti sumra af landflótta ungs fólks verði ekki að veruleika.

Í gær kom út pólitíska veftímaritið  og er þar m.a. fjallað um knattspyrnuvöll, kosningarétt og karl ársins.