Þriðjudagur 16. desember 1997

350. tbl. 1. árg.

Stundum er talað um að í Háskóla Íslands þrífist nokkur áberandi skjallbandalög. Með því er átt við, að tilteknir kennarar skólans komi til skiptis fram opinberlega og hæli verkum hver annars. Nú má vel vera, að þau dæmi sem tiltekin eru séu tilviljun ein, og kennararnir séu í sannleika svona hrifnir. En það má þá hafa gaman að tilviljununum. Nú um daginn barst háskólanemum bæklingur þar sem m.a. var verið að kynna nýja bók eftir Vilhjálm Árnason. Er þar sagt til vitnis um ágæti Vilhjálms: „Vilhjálmur Árnason hefur vakið fjölda landsmanna til vitundar um ábyrgð sína og möguleika á að breyta heiminum til hins betra“. Undir stendur „Páll Skúlason rektor H.Í.“. Í vor var Páll þessi í harðri baráttu um embætti rektors. Var þá gefinn út bæklingur til að útlista gæði Páls. Var þar sagt til vitnis um þau: „Ég held að Páll sé nákvæmlega sá maður sem háskólinn þarfnast núna í embætti rektors. Hann yrði óþrjótandi talsmaður þess að efla vísindi og menntun í landinu og myndi vekja almenning og stjórnvöld til dáða um málefni háskólans. Páll er líka góður stjórnandi og mannasættir. Hann hefur einstaka hæfileika til að greina aðalatriði frá aukaatriðum og er laginn við að koma málum í framkvæmd.“ Undir þetta ritaði svo… Vilhjálmur Árnason.

Til að lesendur geti sjálfir dæmt um „einstaka hæfileika til að greina aðalatriði frá aukaatriðum“ er hér birt stutt klausa úr einu af verkum Páls: „Sjálfsvitund sem er ekki annað en vitund um sjálfan sig sem einstakling rofinn úr tenglsum við hinn ytri veruleika er því ekki fullmótuð sjálfsvitund, samkvæmt lýsingu Hegels, heldur einungis tilfinning fyrir sjálfum sér og hugsanlegu frelsi sínu. Sönn sjálfsvitund er vitund um sjálfan sig sem höfund verka sinna í samfélagi, þar sem gagnkvæm viðurkenning ríkir milli manna. Menn geta því einungis orðið fullkomlega meðvitandi um sjálfa sig í þjóðfélagi, þar sem þeir eru ábyrgir hver gagnvart öðrum. Menn eru ekki einfaldlega vitandi af sjálfum sér „í sjálfum sér, heldur í hinum ytri veruleika: í öðru fólki og hlutunum sem þeir eru ábyrgir fyrir.

Það er sérkennilegt að margir sjálfskipaðir dýravinir leggja mesta áherslu á verndun sjaldgæfra dýra. Þetta er aðallega sérkennilegt vegna þess að þeir segja oft að það séu dýrin sjálf en ekki ánægja mannsins af þeim sem skiptir máli. Þess vegna ætti að vera nokk sama hvort dýr er í útrýmingarhættu eða ekki. Þeir sem kalla sig dýravini ættu að leggja sömu áherslu á hvort tveggja. Hvert einstakt dýr hlýtur að hafa sama gildi í hugum dýravina. Rotta, sem meindýraeyðir eltir, stoppar ekki og hugsar með sér að hún megi nú drepast þar sem stofninn sé hvort eð er svo stór! Síðasti páfagaukurinn af einhverri tegund sem flögrar um frumskóga Suður-Ameríku reynir vafalaust að forða sér þegar fuglasafnarinn nálgast. En hann gerir það ekki til að viðhalda stofninum heldur til að bjarga eigin fiðri.

Umhverfisverndarsinnar telja gjarna að náttúran sé í kyrrstöðu og það eina sem geti raskað henni séu athafnir mannsins. Eins og áður hefur verið bent á hér í VÞ hefur náttúran sjálf séð um að útrýma 99,9% allra þeirra dýra- og plöntutegunda sem litið hafa dagsins ljós á Jörðinni. Athafnir mannsins komu þar hvergi nærri. Í boðskap umhverfisverndarsinna eru jafnan þau skilaboð að í hvert sinn sem óvænt óveður skellur á, nýir sjúkdómar gera vart við sig eða skógareldar breiðast út svo nokkur dæmi séu tekin sé verið að refsa okkur fyrir slæma umgengni um Jörðina. Þetta hafa raunar ýmsir aðrir ofsatrúarhópar reynt að telja mönnum trú um. Jarðvísindin segja okkur hins vegar að Jörðin hafi frosið og bráðnað á víxl um ármilljónir og ýmsar hamfarir átt sér stað löngu fyrir tíma homo sapiens. Eða , svo vitnað sé til orða Snorra goða, „Um hvað reiddust goðin þá er hér brann hraunið er nú stöndum vér á?“

Ein af þeim stofnunum erlendis sem leitar markaðslausna á umhverfismálum er  (Competitive Enterprise Institute) og er margt áhugavert að finna á heimasíðu hennar, m.a. um meinta hækkun hita á Jörðinni, umhverfisskatta, nýtingu eignarréttar í umhverfismálum, ósonlagið og sjálfbæra þróun.