Helgarsprokið 23. nóvember 1997

327. tbl. 1. árg.

Margrét Frímannsdóttir – flokksformaðurinn sem vill flokk sinn feigan – og Hjörleifur Guttormsson, alþingismaður sama flokks, voru saman í sjónvarpsal á dögunum. Umræðuefnið var nýlokinn landsfundur Alþýðubandalagsins og næstu skref í baráttu flokksformannsins í niðurlagningu flokksins. Nefndi Margrét þar að henni hefði þótt sérstaklega ánægjulegt að verkalýðshreyfingin hefði verið öflug á fundinum og stutt sig eindregið. Viðbrögð Hjörleifs voru í senn óvænt og ánægjuleg. Hann benti nefnilega á, að verkalýðshreyfingin hefði akkúrat enga afstöðu tekið með Margréti eða á móti. Hins vegar hefðu nokkrir forystumenn í verkalýðshreyfingunni gert það. Einhverjum kann að finnast þetta smámál en svo er ekki. Það er afar hvimleitt þegar forystumenn verkalýðshreyfingarinnar, verkalýðsrekendur, tjá sig um stjórnmál í nafni þeirra félaga sem þeir reka. Það skal tekið fram að í þessu tilviki munu verkalýðsforstjórarnir ekki hafa gert það, en útlegging Margrétar var á þá lund. Fréttamenn og mis vandaðir stjórnmálamenn leika oft þann leik að láta eins og pólitískar yfirlýsingar forstjóra nauðungarverkalýðsfélaganna séu einlægar skoðanir flests vinnandi fólks í landinu. Svo er vitaskuld alls ekki og því hrósvert að Hjörleifur minnti á það þarna.

Annars verður ekki skafið af Hjörleifi að hann er um margt sérkennilegur stjórnmálamaður. Stundum, og óþarflega oft, heldur hann fram sjónarmiðum sem a.m.k. Vef-Þjóðviljanum finnst heldur forneskjuleg. Þykir ýmsum og sem Hjörleifur sé óvenjulega andvígur því sem flestum þykir horfa til framfara landinu, t.d. með ákafri andstöðu sinni við flestar stóriðjuframkvæmdir. Þá verður því líklega fremur seint haldið fram að hann sé almennt áhugasamur um aukið frjálsræði í landinu og hafa ýmsir haft gaman af að rifja upp gömul ummæli hans á þá lund að ekki væri rétt að fólk gæti valið um neitt nema á grundvelli sósíalismans. Það er hins vegar óþarfi að gleyma að geta þess, að margir bera virðingu fyrir Hjörleifi fyrir þá sök, að þó skoðanir hans séu ekki endilega það sem þjóðin er í brýnastri þörf fyrir, þá er hann þó ekki líklegur til að gefa þær eftir á einum degi þó að Alþýðuflokkurinn kunni að óska þess.

Svo virðist sem ýmsir núverandi forystumanna Alþýðubandalagsins telji allt til vinnandi svo að þeir geti sameinast Alþýðuflokknum. Jafnvel er að heyra að auðlindaskattur og Evrópusambandið séu skyndilega bara allt í lagi. Engu er líkara en nokkrir núverandi forystumenn Alþýðubandalagsins hafi ákveðið að sameinast Alþýðuflokknum með góðu eða illu og megi einu gilda þó flestallt það sem þeir hafa sagt í gegnum árin fari fjandans til. Ekki ætlar Vef-Þjóðviljinn að mæla gegn því að ýmislegt í stefnu Alþýðubandalagsins fari þá leið, en hann getur ekki stillt sig um að benda þessum forystusauðum á það, að fyrirhafnarminna væri fyrir þá væri að ganga rakleitt og formálalaust í Alþýðuflokkinn og skilja bara þá eftir sem ekki hafa kokvídd til að fylgja þeim. En þá yrði náttúrlega ekki hægt að semja við forystumenn krata um framboðslista, forystusæti og þingmennsku, svo ef til vill heldur sýningin áfram.

Hætt er við, að þegar loksins hefur tekist að koma hinum fyrirheitna flokki, Samtökum um Jafnaðarbandalagsvaka, á koppinn, að ýmsum flokksmönnum gangi erfiðlega að berjast fyrir nýju hugsjónamáli, þjóðaratkvæði um aðild að ESB. Lausn forystumanna Alþýðubandalagsins á því máli er vægast sagt stórfurðuleg. Flokkurinn sem hefur ákaft barist gegn inngöngu í ESB á núna að halda áfram að vera mjög á móti henni en fara samhliða því að berjast með kjafti og klóm fyrir þjóðaratkvæði um inngöngu! Og þegar flokkurinn verður spurður: „Af hverju viljið þið þjóðaratkvæði?“ hvað ætla menn þá að segja? Eyða talinu? Segja „af því bara“? Að minnsta kosti má ímynda sér að maður á borð við Hjörleif Guttormsson fari sér hægt í svona loftfimleikum. Hvað sem um hann má segja að öðru leyti, er hann ólíkur mörgum öðrum þingmönnum á þann hátt að hann á til að vera vísindalegur í hugsun. Dæmi um slíkt í fari hans er bók sem hann er annar höfundur að og kom út á dögunum. Rit þetta fjallar um leyndardóma Vatnajökuls og segir frá jarðhræringum á því svæði. Óvenjulega glæsileg bók, hvort sem litið er til efnistaka eða frágangs, og má mikið vera ef hún fær ekki þessi s.k. íslensku bókmenntaverðlaun sem fræðibók þegar þar að kemur.