Laugardagur 22. nóvember 1997

326. tbl. 1. árg.

Það er fátítt að frambjóðendur í prófkjörum stjórnmálaflokkanna láti róttækar skoðanir í ljós. Flestir láta sér nægja að lofa öllum öllu. Svavar Halldórsson, frambjóðandi í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Hafnarfirði gerði þó undantekningu í DV í fyrradag. Þar mælti hann fyrir hugmynd um ávísanakerfi í leikskólum Hafnarfjarðar. Í stuttu máli gengur ávísanakerfið út á að foreldrar barna á leikskólaldri fái árlega ávísun frá sveitarfélaginu. Ávísunina geta þeir nýtt til að kaupa leikskólavist fyrir börn sín eða  leyst hana út og gætt barnanna sjálfir. Sveitarfélagið mynddi að sjálfsögðu hætta rekstri leikskóla og einkaaðilar tækju við. Þetta fyrirkomulag myndi að sjálfsögðu hafa verð- og gæðasamkeppni í för með sér sem skortir svo sárlega í öllu skólakerfinu.

Ávísankerfið gæti vissulega verið útgönguleið úr þeim ríkisrekstri og forsjárhyggju sem einkennir nær allt skólakerfið í dag. Það myndi neyða kennara til að leggja sig fram um að ná í viðskiptavini og sinna þeim af kostgæfni. Foreldrar og nemendur myndu að sjálfsögðu velta því fyrir sér hvar væri best að innleysa ávísunina. Vinstri menn ættu að geta sætt sig við þessa lausn þar sem ríkið héldi áfram að niðurgreiða menntunina með sama framlagi og nú en peningarnir yrðu nýttir betur. Það myndi samkeppnin tryggja.

Í Bandaríkjunum hefur á undanförnum árum verið mikill vöxtur í svonefndu heimanámi. Foreldrar hafa í vaxandi mæli hafnað því að senda börn sín í skóla hins opinbera þar sem ofbeldi er daglegt brauð og  námsefni stenst engan veginn væntingar foreldra og nemenda. Um ein milljón bandarískra barna nýtur nú fræðslu foreldra sinna heima fyrir í stað þess að fara í skóla.

Á heimasíðu Free-market.net má finna ágætan lista yfir samtök sem einbeita sér að markaðslausnum í skólamálum þ.m.t. heimanámi.