Miðvikudagur 19. nóvember 1997

323. tbl. 1. árg.

„Öllum lofað öllu“ hefði verið ágæt fyrirsögn á grein framsóknarmannsins Alfreðs Þorsteinssonar í DV á dögunum. Þetta er dæmigerð prófkjörsgrein, enda Alfreð að skella sér í hinn undarlega prófkjörsslag R-listans. Hann vill að á næsta kjörtímabili verði reistur yfirbyggður knattspyrnuvöllur og telur ekki eftir sér að losa útsvarsgreiðendur við um hálfan milljarð króna í það verkefni. Alfreð áttar sig þó á því að ekki eru allir kjósendur í prófkjörinu þeirrar skoðunar að þetta sé brýnast af öllu og þess vegna nefnir hann t.d. að ýmis velferðarmál séu „alger forgangsverkefni“. En hvernig leysir Alfreð nú þann vanda að styggja engan lesanda? Jú, Reykjavíkurborg hefur að hans mati burði til að vinna samtímis að ofangreindum verkefnum! Engu þarf að fresta og ekki þarf að hætta við neitt. Allt verður gert fyrir alla.

Hinn eyðslusami þingmaður Ágúst Einarsson var í spjallþætti í útvarpi um helgina og tókst að koma þar að þeirri skoðun sinni að þegar borinn góði hefði lokið núverandi verki þyrfti að drífa hann til Austfjarða til að hola fjöll þar. Þeir hlustendur sem héldu að hann léti sér nægja þessa útgjaldatillögu í bili gera þingmanninum rangt til. Hann er ötulli en svo. Í sjónvarpsfréttum í fyrradag kom fram að honum finnst við verða að taka okkur á í útgjöldum til öldrunarmála, enda séum við ekki nema hálfdrættingar á við draumaríkin á hinum Norðurlöndunum. Því meiru sem eytt er þeim mun betra að mati Ágústs og þar með eru landsmenn væntanlega búnir að fá svör við spurningunni um það hvernig auðlindaskattinum yrði varið tækist Ágústi og félögum að koma honum á.

Á landsfundi sínum um helgina mun Kvennalistinn hafa klofnað í einhver brotabrot á stærð við fund hjá Grósku. Garri sem skrifar í Dag-Tímann tileinkaði Kvennalistanum pistil sinn í gær undir fyrirsögninni  „Kvennalistinn býður fram klofið“.

Náttfari hefur farið á kostum í pistlum sínum að undanförnu. Hann kemur nú út á þriðjudögum, föstudögum og sunnudögum og er nauðsynleg lesning öllum áhugamönnum um stjórnmál – og öllum hinum líka.