Fimmtudagur 20. nóvember 1997

324. tbl. 1. árg.
Fyrir tveimur mánuðum var haldið þing Sambands ungra sjálfstæðismanna og tóku um 140 manns þátt í þingstörfum. Ungir sjálfstæðismenn hafa reynt að hafa sem fæst orð um þátttökuna enda varð hún þeim talsvert áfall og óþægilega áþreifanlegt dæmi um lægðina sem verið hefur í starfi SUS undanfarin ár. Urðu þeir flestir því heldur fegnir þegar fjölmiðlar sögðu ekkert frá þinghaldinu. Nú um helgina var hins vegar haldinn „landsfundur Kvennalistans“. Þar komu saman fimmtán konur sem hafa starfað lengi innan listans og þrjátíu aðrar sem vilja fá að komast í einhvern annan flokk sem fyrst. Með öðrum orðum, rúmlega fjörtíu konur voru á landsfundinum og fjölmiðlar voru fullir af fréttum af þessum viðburði og vinstri sinnaðir ritstjórar á trúboðsblöðum skrifa leiðara um stórkostleg pólitísk tíðindi frá þessum tæplega þrjátíu sem höfðu sitt mál fram. Þetta þarf ekki að koma mönnum á óvart, enda er svo komið, að fjölmiðlar hafa yfirleitt einungis áhuga á þeim sem tala um samfylkingu sósíalista eða kvarta yfir einhverju. Öðru segja þeir ekki frá. – Hér er þó rétt að undanskilja Morgunblaðið. Í hvert sinn er einhver segir eitthvað jákvætt um auðlindaskatt er greint frá því á baksíðu.

Eins og fram hefur komið í öðrum fjölmiðlum er drykkurinn Jibbí frá Sól með 24,5% virðisaukaskatti, en sambærilegur drykkur Mjólkursamsölunnar, kókómjólk, „einungis“ með 14% virðisaukaskatti. Nú sjá flestir hversu fráleitt þetta er og vilja að þetta misræmi sé leiðrétt með því að jibbí-drykkurinn fái að njóta þeirra fríðinda að vera í 14% vsk. flokknum með kókómjólkinni. Vitaskuld væri það réttlætismál, en þó í raun engin lausn. Eina leiðin út úr rugli á borð við þetta er að allar vörur beri sama skatthlutfall og að ríkið sé ekki að ákveða fyrir fólk hvað því sé gott að innbyrða og hvað ekki. Slík neyslustýring hlýtur einungis að eiga heima í þjóðfélagi sem við viljum ekki búa í.