Þriðjudagur 18. nóvember 1997

322. tbl. 1. árg.

Það er athyglisvert að ýmsir þeir þingmenn, sem hátt hafa um að standa verði vörð um byggðir landsins, eru á sama tíma talsmenn veiðileyfaskatts á sjávarútveginn. Þetta er einkum athyglisvert í ljósi þess að slík sérstök skattheimta á sjávarútveginn myndi hafa miklu meiri áhrif í sjávarplássunum hringinn í kringum landið en í Reykjavík og nágrenni og trúlega fælist í henni verulegur tilflutningur fjármagns frá landsbyggðinni til Reykjavíkur.

Það er líka áhugavert í þessu samhengi að rifja upp fyrirspurn Jóhönnu Sigurðardóttur til forsætisráðherra í byggðaumræðunni á Alþingi, en þar vildi hún fá skýr svör við því til hvaða aðgerða ríkisstjórnin ætlaði að grípa til að fjölga atvinnutækifærum kvenna á landsbyggðinni. Forsætisráðherra svaraði að sjálfsögðu efnislega eitthvað á þá leið, að þetta væri ekki mál sem ríkisstjórnin gæti gert neitt sérstakt í. Það athyglisverða er auðvitað gamaldags hugsunarháttur alþingismanns sem spyr á fyrrgreindan hátt. Auk þess er full ástæða til að velta því fyrir sér, hvernig Jóhanna Sigurðardóttir og samherjar hennar í stjórnmálum myndu ráðstafa veiðileyfaskatti sem rynni til ríkisins frá sjávarútveginum. Ætli andvirði hans færi ekki allt í gæluverkefni eins og „átak til að efla atvinnu hjá landsbyggðarkonum“, en yrði ekki notað til að draga úr öðrum sköttum, eins og stundum hefur verið lofað að gera.

Annar þingmaður, Finnur Ingólfsson, leikur oft stóra bróður. Hann sagði ítrekað í útvarpsviðtali nýlega að hann hefði stutt hitt og þetta og átti þá við ný verkefni á sviði framleiðslu og iðnaðar. Hlustendur áttu líklega að hugsa með sér að þar færi mikill öndvegis maður. Hann hætti fé sínu til að styðja nýsköpun. Alveg til fyrirmyndar – eða hvað. Nei, það mun raunar ekki vera alveg rétt hjá þingmanninum og ráðherranum að hann hafi stutt nokkurn hlut eða hætt fé sínu. Hann lét sig aftur á móti hafa það að hætta fé skattgreiðenda í gæluverkefni sín. Gæluverkefnin eiga svo að hjálpa til við að tryggja honum áframhaldandi þingsetu. Mikill öðlingur hann Finnur.