Mánudagur 17. nóvember 1997

321. tbl. 1. árg.
Frumvarp til vopnalaga heitir langhundur nokkur sem dómsmálaráðherra hefur lagt fyrir Alþingi. Að því hefur lengi verið unnið, haldnir margir fundir og samráð haft við margt mætra manna. Þeir sem ekki eru innvígðir í þankagang ráðuneyta velta því þó fyrir sér hvort ekki hefði mátt spara töluverðar fundasetur ef setningar á borð við „[m]eð vopni er í lögum þessum átt við hvert það tæki eða efni sem unnt er að beita til að deyða eða skaða heilsu manna eða dýra tímabundið eða varanlega, enda sé með tilliti til aðstæðna ástæða til að ætla að fyrirhugað sé að nota tækið eða efnið í slíkum tilgangi,“ hefði verið sleppt úr frumvarpinu. Vera kann að allar slíkar setningar hafi verið nauðsynlegar, en ekki getur þó þurft að taka eftirfarandi fram í lögum: „Þeir sem fara með skotelda skulu ætíð gæta fyllstu varúðar.“

En þeir sem nenna að grufla í lögum frá Alþingi sjá því miður mörg dæmi um svona lagasetningar. Almennar óskir, vonir og jafnvel þrár frumvarpshöfunda virðast býsna oft rata inn í lagatexta og verða vitaskuld til þess að flækja þá og lengja að óþörfu. Þingmenn og embættismenn (sem ku semja flest lagafrumvörp) mættu huga að því að lög eru þeim mun gagnlegri sem þau eru styttri og færri.

Jóhanna Sigurðardóttir, óumdeildur leiðtogi hins mikla Þjóðvaka, er einn af þeim þingmönnum sem finnst að ríkið eigi að hlutast til um alla mögulega og ómögulega hluti, m.a. frjáls viðskipti manna sín á milli. Í þeim anda er nýleg fyrirspurn hennar til viðskiptaráðherra um það hvort „afsláttarkjör, fríðindatilboð (t.d. frípunktar), samræmdir viðskiptaskilmálar og þess háttar samningar hjá fyrirtækjum og stofnunum í atvinnu- og viðskiptalífi [hafi] haft skaðleg áhrif á samkeppni og stuðlað að hærra verði á vöru og þjónustu til neytenda.“ Hvers vegna í ósköpunum ætti hið opinbera að skipta sér af því hvernig menn haga viðskiptum sínum ef þau eru heiðarleg að beggja mati? Það væri óneitanlega gleðiefni ef þingmenn áttuðu sig á því að þeir eiga ekki að vera stóri bróðir almennings.