Helgarsprokið 16. nóvember 1997

320. tbl. 1. árg.

Fáir virðast hafa dug í sér til að mótmæla hinni árlegu aðför að einkalífi manna sem birting álagningarskrár er. Margir stjórnmálamenn (a.m.k. sá meirihluti þeirra sem stendur að birtingunni hverju sinni) telja það sjálfsagt nauðsynlegt að birta þessar upplýsingar um einkahagi manna til að geta alið á öfund og óánægju en þær frænkur eru oft notaðar sem tylliástæða til skattheimtu. Oftast segjast fylgjendur birtingarinnar þó vera áhugamenn um bætt skattskil og birtingin geri mönnum erfiðara fyrir að svíkja undan skatti. Þó er það afar fátítt að ábendingar frá almenningi leiði til uppljóstrunar á skattsvikum.

Með birtingu álagningarskrár er verið að upplýsa hversu mikið ríkið tekur af einstaklingum og þar með hverjar tekjur þeir hafa. Þeir sem eru því fylgjandi að þessar upplýsingar séu birtar hljóta einnig að vera því fylgjandi að birtar séu upplýsingar um hvað menn fá frá ríkinu. Það leikur ekki síður grunur á um að svindlað sé á bótakerfinu en skattkerfinu. Það liggur því beint við að birta árlega hversu miklar bætur, lán og styrki hver og einn fær frá hinu opinbera. Þannig má minnka líkur á því að þeir sem eru í vinnu fái atvinnuleysisbætur, að sambýlisfólk fái bætur sem einstæðir foreldrar, að námsmenn menn háar tekjur fái námslán svo nokkur dæmi séu tekin.

Þá gætu blöðin birt myndir af heimilum og bílum afkastamestu bótaþeganna eins og þau gera þegar skatturinn hefur upplýst hverjir hafa hæstu tekjurnar. Og þá myndu útvarpsstöðvarnar væntanlega lesa upp hverjir væru á topp tíu listanum yfir bótaþega í bótaumdæmum landsins eins og þeir þylja upp nöfn „skattkónganna“ í skattumdæmum landsins. Svona ef við viljum gæta samræmis.