Laugardagur 15. nóvember 1997

319. tbl. 1. árg.

Davíð Oddsson forsætisráðherra sagði í umræðum um byggðamál á Alþingi á fimmtudag að til greina kæmi að Byggðastofnun hætti lánveitingum, enda hefði breytt umhverfi á fjármálamarkaði breytt öllum aðstæðum varðandi lánveitingar til atvinnurekstrarins. Það er fagnaðarefni að forsætisráðherra skuli opna fyrir umræðu um málefni stofnunarinnar á þessum forsendum. Þess ber líka að minnast að frá því Davíð tók við 1991 hefur lán- og styrkveitingum ríkisvaldsins til atvinnufyrirtækja í nafni byggðastefnu fækkað til mikilla muna. Hins vegar verður að hvetja Davíð til að stíga skrefið til fulls og beita sér fyrir því að Byggðastofnun verði lögð niður og þeim fjármunum, sem árlega fara til rekstrar hennar, verði varið með öðrum hætti. Það er til dæmis ljóst að það myndi gagnast atvinnulífinu í landinu, bæði í þéttbýli og dreifbýli, miklu betur að greiða niður skuldir ríkissjóðs eða lækka skatta.

Byggðastofnun var stofnuð á grunni Framkvæmdastofnunar ríkisins í tíð vinstri stjórnar Ólafs Jóhannessonar 1971 til 1974. Sjálfstæðisflokkurinn beitti sér eindregið gegn stofnun hennar og í kosningum 1974 setti flokkurinn fram það loforð, að leggja bæri stofnunina niður. Sjálfstæðismenn fóru í ríkisstjórn að þeim kosningum loknum en ekkert gerðist. Eftir kosningaósigur flokksins 1978 voru margar skýringar gefnar og á Heimdallarfundi þá um haustið taldi ungur borgarfulltrúi, Davíð Oddsson, það meðal ástæðnanna að flokkurinn hefði ekki staðið við þetta fyrirheit. Það hefði dregið úr trú kjósenda á því að sjálfstæðismenn stæðu við það sem þeir segðu. Nú 20 árum seinna þykir ýmsum tími til kominn að rykið verði dustað af þessu gamla loforði og Byggðastofnun lögð niður.

Vef-Þjóðviljinn var viðstaddur útgáfutónleika Maus í Þjóðleikhússkjallaranum í fyrradag og er ekki hægt að segja annað en hann hafi orðið sáttuir við það sem boðið var upp á. Það má þó kannske segja að tónleikarnir hafi verið fluttir í skugga lesendabréfs í Mogganum þar sem Árni Matthíasson poppskríbent blaðsins var, vegna meintrar vináttu við hljómsveitina, sakaður um að hafa gert of vel við hana í dómi sínum. Voru bréfskrifarar þeirrar skoðunar að Árni hafi hampað Maus of mikið. Fróðlegt verður að fylgjast með svari Árna, en allt að einu þykir  poppeyrum VÞ að hægt sé að mæla með tónlist Maus. Maus er gott dæmi um gróskuna í íslenskri tónlist um þessar mundir.