Föstudagur 14. nóvember 1997

318. tbl. 1. árg.

Svonefndir grænir skattar eru nýjasta afsökun stjórnmálamanna fyrir því að seilast í vasa almennings.  Eins og getið var um hér í Vef-Þjóðviljanum í fyrir nokkrum dögum geta auknir skattar á eldsneyti leitt til meiri mengunar þar sem fyrirtæki flytji starfsemi sína einfaldlega til annarra landa. Í Degi-Tímanum í gær er rætt við Runólf Ólafsson framkvæmdastjóra FÍB um bíla og skatta. Runólfur upplýsir að skattar á bíleigendur hafi vaxið undanfarin ár. Hvort sem miðað er við hlutfall þeirra af landsframleiðslu eða tekjum ríkisins. Runólfur bendir jafnframt á að mikil skattlagning á bíleigendur komi í veg fyrir að þeir endurnýi bíla sína. Runólfur nefnir að í Bretlandi komi 75% mengunar frá 10% bílaflotans sem séu einkum gamlir bílar.

Staðreyndin er nefnilega sú að gamlir bílar menga meira en nýir þannig að „græn skattlagning“ á bíla getur leitt til meiri mengunar. Einnig er hætt við að menn dragi úr viðhaldi bíla sem getur valdið óþarfa orkusóun og mengun. Það verða miklar framfarir á hverju ári í orkunýtingu bíla og nýjar eldsneytisgerðir leysa gamlar af hólmi. Ef umhverfið á að njóta þessara hröðu framfara er nauðsynlegt að stilla álögum á bíleigendur í hóf. Aðeins þannig  geta þeir tileinkað sér hina nýju tækni til hagbóta fyrir sig og umhverfið.