Fimmtudagur 13. nóvember 1997

317. tbl. 1. árg.

Það er engu líkara en að almanakið sé að ljúga því að okkur að nú sé árið 1997. Það læðist nefnilega að mönnum sá grunur að árið 1987 hafi aldrei liðið eða sé í það minnsta komið aftur: Það er góðæri. Stuðmenn glamra á fullu. Þjóðin fær reglulega bjánahroll vegna Steingríms Hermannssonar. Duran Duran hljómar á útvarpsstöðvunum. Árni Sigfússon er efnilegasti ungi maðurinn í borgarapparatinu. Davíð er vinsæll. Aldrei hafa verið fluttir inn jafnmargir bílar. Halldór Ásgrímsson er í fýlu.

Áhugamenn um stjórnmál bíða spenntir eftir því að sjá útfærsluna á svokölluðu prófkjöri R-listans í Reykjavík. Spurst hefur út að prófkjörið eigi að halda þann 24. janúar nk. en að öðru leyti liggur fyrirkomulag þess ekki fyrir. Allt bendir til að um verði að ræða æði flókið og illskiljanlegt fyrirkomulag, enda hefur forysta listans látið hafa eftir sér fjölbreytilegar og jafnvel mótsagnakenndar yfirlýsingar um hina fjölmörgu þætti sem tryggja beri í prófkjörinu.
 
Þannig á víst að tryggja hverjum hinna fjögurra flokka tvö sæti í efstu sjö sætunum, nema þeim minnsta (líklega Kvennalistanum), sem fær aðeins einn. Samhliða því að tryggja flokkunum þessi sæti er víst mælst til þess að óflokksbundnir eigi þess kost að bjóða sig fram í sæti sem fyrirfram eru eyrnamerkt flokkunum og geta menn spurt sig hvernig það komi til með að ganga upp. Hvernig munu framsóknarmenn t.d. taka því ef einhverjir óflokksbundnir frambjóðendur bjóða sig fram í sæti flokksins og ná betri árangri heldur en Alfreð og Sigrún? Mun Kvennalistinn sætta sig við það að hinn óflokksbundni framsóknarmaður Helgi Pétursson fari í framboð í sæti Kvennalistans ef  hann nær betri árangri en Steinunn Óskarsdóttir?

Fyrir utan þetta vandamál er svo álíka snúið fyrir R-listafólkið að bregðast við þeirri stöðu sem upp getur komið ef frambjóðendur flokkseigenda í einum aðildarflokki listans lúta í lægra haldi fyrir einhverjum jaðarmönnum, nýliðum eða uppreisnarseggjum í eigin flokki, sem inn komast fyrir tilstuðlan kjósenda úr öðrum flokkum. Eru flokkseigendur í Alþýðubandalagi og Framsóknarflokki tilbúnir að láta Krata velja fulltrúa sína í sæti flokkanna á listanum? Um það má efast.

Til að kóróna þau vandamál sem upp geta komið í þessu sambandi má benda á, að miðað við þær hugmyndir að kosningakerfi, sem nú hefur verið lýst, geta R-listamenn lent í því að kynjahlutföll í efstu sætunum verði afar ójöfn. Svo gæti t.d. farið að nýir karlmenn næðu sætum af reyndum konum bæði í Alþýðubandalagi og Framsóknarflokki og að fulltrúi Alþýðuflokks, sem tekur við af öðrum  Kvennalistafulltrúanum, verði líka karl. Ekki skulu niðurstöður af þessu tagi gagnrýndar hér, en það væri óneitanlega nokkuð sérkennilegt fyrir kynjakvótaflokkinn Alþýðubandalag, svo ekki sé nú minnst á Kvennalistann, að standa að lista sem þannig væri samansettur.

Það er ekki að furða að R-listafólk skuli vera búið að fá Þorkel Helgason, fyrrv. prófessor og ráðuneytisstjóra og núverandi orkumálastjóra, til að smíða sýstem í kringum þennan óskapnað, sem prófkjör þeirra virðist ætla að verða. Þorkell er talinn höfundur hins óskiljanlega kosningakerfis sem við búum við í alþingiskosningum, sem t.d. getur leitt til þess að flokkur sem tapaði 600 atkvæðum í Suðurlandskjördæmi bætti við sig manni þar í síðustu kosningum, og virðist í öllum atriðum leiða til óvæntra og ófyrirsjáanlegra úrslita, nema í Austurlandskjördæmi þar sem Egill Jónsson kemst alltaf inn, hvernig svo sem kosningarnar fara.