Miðvikudagur 12. nóvember 1997

316. tbl. 1. árg.

Eins og kom í ljós á landsfundi Alþýðubandalagsins um síðustu helgi eru helstu forystumenn flokksins, þau Margrét Frímannsdóttir og Steingrímur J. Sigfússon, ekki sammála um alla hluti. Um eitt hafa þau þó verið sammála en það er að Íslendingar séu of sljóir og vitlausir til að hægt sé að leyfa þeim að kaupa bjór. Í nýjasta tölublaði Stefnis eru rifjuð upp ummæli nokkurra þingmanna um það hvort leyfa ætti bjórinn. Gefum þeim Margréti og Steingrími orðið:

„Ég er móðir tveggja unglinga og segi þess vegna nei.“ – Margrét Frímannsdóttir.
Nú er bara spurning hvort Margrét hefur skipt um skoðun þar sem unglingarnir eru vaxnir úr grasi.

„Ég hef til viðbótar pólítískar ástæður fyrir því að ég vil ekki standa að breytingum, hvorki í áfengismálum né annars staðar sem gera fólkið óvirkara og sljórra gagnvart umhverfi sínu. Það tel ég að aukin neysla bjór, jafnvel þó að eitthvað dragi úr neyslu annarra áfengistegunda, mundi gera.“ – Steingrímur Sigfússon.
Ætli Steingrímuri sé sama sinnis um fyrirhugaðar breytingar á Alþýðubandalaginu og breytingar í áfengismálunum? Að slíkar breytingar „geri  fólk óvirkara og sljórra“?

Einn flötur á byggðastefnunni er flutningur ríkisstofnana út á land, sem nú er mikið í tísku hjá ákveðnum hópi stjórnmálamanna. Nýjasta hugmyndin í þeim efnum er flutningur á tiltekinni starfsemi Byggðastofnunar norður á Sauðárkrók. Starfsmenn taka þessu að sjálfsögðu ekki vel, enda vinna þeir við að halda öðru fólki úti á landi en eiga auðvitað ekki að þurfa að sætta sig við það sjálfir. Alls konar sjónarmið hafa komið upp í málinu, svo sem að flutningurinn verði til að styrkja byggð á Sauðárkróki, að hann sé táknrænn fyrir byggðastefnuna, að ekki megi setja starfsfólki þá afarkosti, að þurfa að flytjast milli landshluta eða missa vinnuna ella og svo má lengi telja. Hins vegar sárvantar í opinbera umræðu um málið sjálfan kjarna málsins, þ.e. er þessi tiltekna starfsemi Byggðastofnunar nauðsynleg? Er Byggðastofnun nauðsynleg? Er starfsemi hennar jafnvel skaðleg? Væri ekki hagfelldast að leggja hana niður. Vonandi munu ráðamenn þjóðarinnar leiða hugann að þessum þáttum áður en teknar verða einhverjar fljótfærnislegar ákvarðanir í þessum efnum.

Það hefur komið betur í ljós að undanförnu hve nauðsynlegt það er málfrelsinu að taka útgáfustyrkinn af stjórnmálaflokkunum. Þessir útgáfustyrkir gera þeim sem vilja halda uppi andófi gegn þingflokkunum erfiðara fyrir. Þingflokarnir geta gengið í sameiginlega sjóði til að standa undir kostnaði við að koma áróðri sínum á framfæri. Á þessari styrkveitingu kann einnig að vera annar flötur. Hvað kemur í veg fyrir að þetta fé, sem hleypur á tugum milljóna króna á ári, sé notað til að kaupa ritstjórastóla á dagblöðunum handa sendimönnum flokkanna, t.d. þingmönnum, kosningastjórum eða fyrrverandi ráðherrum? Líkurnar á því að útgáfustyrkurinn verði felldur niður eru hins vegar hverfandi. Þeir sam ákveða styrkinn eru nefnilega þingflokkarnir sjálfir.