Þriðjudagur 11. nóvember 1997

315. tbl. 1. árg.
Nú berast af því fréttir að hljóðfæraleikarar Sinfóníunnar hafi lagt frá sér hljóðfærin og séu hættir störfum. Þeir telja ríkið ekki lengur bjóða nógu vel og við kjörin megi ekki una. Auk þess virðist þeim orðið ljóst að íslensk þjóð mun lifa af þótt þeir spili ekki áfram á kostnað skattgreiðenda. Við þessi tímamót er við hæfi að ríkisvaldið þakki þessum ágætu tónlistarmönnum vel unnin störf og óski þeim velgengni á nýjum vettvangi. Hæfileikar þeirra munu vafalaust koma að góðum notum annars staðar.

Hér á landi hefur sú þróun átt sér stað alla þessa öld, að fólk hefur flust úr strjálbýli í þéttbýli. Fyrst flutti fólk úr sveitunum og á sjávarsíðuna, en síðar úr þorpunum vítt og breitt um landið til höfuðborgarsvæðisins. Fyrir þessu eru margar ástæður, ekki síst gerbreyttir atvinnuhættir, nýjar óskir fólks um aðstæður á borð við ýmiss konar þjónustu, félagsstarf og þess háttar. Alla öldina hafa hins vegar ákveðin stjórnmálaöfl reynt að sporna við þessari þróun. Forystumenn í pólitík hafa margir hverjir talið, að það væri rétt að fá fólk til að flytja ekki til staða þar sem það vill búa, heldur halda áfram búsetu á stöðum þar sem það kærir sig ekki um að vera, grundvöllur atvinnulífsins er brostinn og ómögulegt að búa fólki þær aðstæður sem það krefst í nútímasamfélagi, svo sem í sambandi við heilsugæslu, menntun og þess háttar.

Fyrir rétt um aldarfjórðungi var sett á stofn sérstök stofnun til að vinna að þessu markmiði, Framkvæmdastofnun ríkisins, en auk þess hafa fjölmargar aðrar stofnanir unnið að þessu verkefni. Nú í vikunni var greint frá könnun á styrkjum ríkisins til að sporna við búsetubreytingunum í landinu. Þar var leitt getum að því að á undanförnum árum hafi að jafnaði verið eytt um 32 milljörðum á hverju ári til að vinna gegn byggðaröskun. Þarna eru bæði talin bein útgjöld (t.d. í gegnum Framkvæmdastofnun sem nú heitir Byggðastofnun) og óbein, svo sem niðurgreiðslur, útflutningsbætur og beingreiðslur til landbúnaðar. Aðferðum skýrsluhöfunda ber vissulega að taka með miklum fyrirvara en engu að síður er hér um gríðarlegar upphæðir að ræða, en þó ber að benda á að talsvert hefur dregið úr styrkveitingum af þessu tagi á þessum áratug. Fyrir 1990 voru millifærslurnar frá þéttbýli til dreifbýlið ennþá meiri.

Framangreindar upplýsingar eru svo ekki síst athyglisverðar í ljósi þess, að ekkert lát virðist vera á flutningi fólks frá landsbyggðinni til Reykjavíkur og nágrennis. Þær gríðarlegu upphæðir, sem notaðar hafa verið í byggðapólitíkinni, hafa með öðrum orðum ekki skilað tilætluðum árangri. Engin ástæða er til að ætla, að nokkur breyting verði á því á komandi árum. Það virðist sama hversu miklum fjármunum ríkið ver til að koma í veg fyrir eðlilega þróun; hún verður ekki stöðvuð. En meðan stjórnmálamenn lifa í þeirri blekkingu, að þeir geti með beinum hætti komið í veg fyrir hana, er fullvíst að lífskjör verða miklu verri heldur en ella væri mögulegt.

Það er ánægjulegt að DV hefur tekist að finna nýjan ritstjóra sem er frjáls og algerlega óháður stjórnmálaflokkum og hagsmunasamtökum. Til allrar hamingju réðu þeir ekki mann sem t.d. hefur verið talsmaður hagsmunasamtaka stúdenta eða borgarfulltrúi Alþýðubandalagsins eða þingmaður og ráðherra Alþýðuflokksins eða ritstjóri málgagna kommúnista eða krata.