Í þessu sambandi má einnig benda á að þegar fyrirtæki flytja starfsemi sína til þróunarlandanna geta þau oft á tíðum leyft sér að nota eldri tækni og tæki til framleiðslu sinnar. Eldri tæki hafa yfirleitt slakari nýtingu orku en ný tæki. Í kjölfar flutningsins er því ekki ólíklegt að útblástur gróðurhúsalofttegunda aukist. Þetta ættu fylgismenn svonefndra grænna skatta að hafa í huga.
Það vekur nokkra furðu hve vegleg frétt DV á laugardaginn var um nýtt vikublað, Nýja mánudagsblaðið. Af DV að dæma er útkoma hins nýja blaðs helsta fréttaefni vikunnar. Í Nýja mánudagsblaðinu er hins vegar að finna lofrullu um Össur Skarphéðinsson, nýbakaðan ritstjóra DV. Engum dettur þó í hug að Össur hafi fengið þennan lofsöng birtan um sig í Nýja mánudagsblaðinu gegn því að birta veglega frétt um Nýja mánudagsblaðið í DV. Enda er Össur þekktur fyrri hlédrægni og ábyrgan fréttaflutning frá ritstjóraárum sínum á Þjóðviljanum og Alþýðublaðinu.
Engum dettur heldur í hug að Össur misnoti nýja stöðu sína til að koma áhugamálum sínum t.d. veiðileyfaskatti og Gróskumálum í fréttirnar. Þannig er engin frétt um veiðileyfaskattinn á íþróttasíðum DV í dag og Gróska fær ekkert pláss í smáauglýsingunum.