Mánudagur 10. nóvember 1997

314. tbl. 1. árg.
Viðhorf til áróðurs sjálfskipaðra talsmanna umhverfisverndar virðist smám saman vera að breytast. Æ oftar heyrast nú efasemdir um að kenningar eins og sú að Jörðin sé að hitna eigi við rök að styðjast. Eitt dæmi þar um er umfjöllun í Business Week um hugmyndir Clintons að hækka skatta á eldsneyti til að minnka útblástur. Þar er bent á að þrátt fyrir að afar umdeilt sé hvort Jörðin er að hitna eða hvað kunni að valda hitasveiflum hyggist Clinton leggja á skatta sem muni minnka hagvöxt um helming og valda verulegu atvinnuleysi. Afleiðing þessarar skattheimtu verði hins vegar ekki sú sem Clinton ætli sér, heldur muni eldsneytisnotkunin einfaldlega færast frá ríkari löndum til þróunarlandanna, sem ekki hafa tekið á sig sambærilegar alþjóðlegar skuldbindingar.

Í þessu sambandi  má einnig benda á að þegar fyrirtæki flytja starfsemi sína til þróunarlandanna geta þau oft á tíðum leyft sér að nota eldri tækni og tæki til framleiðslu sinnar. Eldri tæki hafa yfirleitt slakari nýtingu orku en ný tæki. Í kjölfar flutningsins er því ekki ólíklegt að útblástur gróðurhúsalofttegunda aukist.  Þetta ættu fylgismenn svonefndra grænna skatta að hafa í huga.

Það vekur nokkra furðu hve vegleg frétt DV á laugardaginn var um nýtt vikublað, Nýja mánudagsblaðið. Af DV að dæma er útkoma hins nýja blaðs helsta fréttaefni vikunnar. Í Nýja mánudagsblaðinu er hins vegar að finna lofrullu um Össur Skarphéðinsson, nýbakaðan ritstjóra DV. Engum dettur þó í hug að Össur hafi fengið þennan lofsöng birtan um sig í Nýja mánudagsblaðinu gegn því að birta veglega frétt um Nýja mánudagsblaðið í DV. Enda er Össur þekktur fyrri hlédrægni og ábyrgan fréttaflutning frá ritstjóraárum sínum á Þjóðviljanum og Alþýðublaðinu.
Engum dettur heldur í hug að Össur misnoti nýja stöðu sína til að koma áhugamálum sínum t.d. veiðileyfaskatti og Gróskumálum í fréttirnar.  Þannig er engin frétt um veiðileyfaskattinn á íþróttasíðum DV í dag og Gróska fær ekkert pláss í smáauglýsingunum.