Helgarsprokið 9. nóvember 1997

313. tbl. 1. árg.

Vinstri menn á Íslandi og skoðanabræður þeirra víða um heim hafa undanförnum árum og áratugum þurft að éta ofan í sig flestar kenningar sínar, hugmyndir og hugsjónir. Þar sem gerðar hafa verið tilraunir til að framfylgja þeim hafa þær farið út um þúfur. Þessar hugmyndir hafa í sinni verstu mynd leitt af sér ógnarstjórnir og hungur, eins og nú má sjá í Norður-Kóreu, en í sinni skástu mynd hafa þær leitt til efnahagslegrar stöðnunar og óhagkvæmni, eins og komið hefur fyrir í sumum vestrænum ríkjum þegar of langt hefur verið gengið í átt til forsjárhyggju, ríkisafskipta og skattpíningar.

Af þessum sökum hafa vinstri menn sífellt verið að breyta nöfnum flokka sinna og samtaka, sameina flokka eða kljúfa, hefja nýja kenningasmiði til hásætis og afneita um leið eldri hugmyndum sínum, kennisetningum og spámönnum. Það hefur hins vegar ekki hingað til orðið til að draga úr sannfæringarkrafti talsmanna vinstri manna, fullvissu um réttmæti sjónarmiða sinna (þ.e. þeirra nýjustu á hverjum tíma) eða því yfirlæti, sem jafnan fylgir málflutningi þeirra.

Forysta Grósku (sem er nýjasta nafnið á sameiningarsamtökum ungra vinstri manna – einhvern tímann var talað um Verðandi, þar áður um Birtingu og svo má lengi telja) virðist hins vegar vera orðin eitthvað leið á því að halda fram stjórnmálakenningum sem jafnóðum eru hraktar eða beinlínis afsannaðar. Svar þeirra er á vissan hátt snjallt, þeir kalla stefnuskrá sína „Opna bók“ og setja þann fyrirvara við allan málflutning sinn að hann kunni að breytast. Vinstri mennirnir virðast þannig hafa lært ákveðna lexíu af Framsóknarflokknum, sem hefur í 80 ár fylgt stefnuskrá sem er opin bók með auðum blaðsíðum, og hagað seglum eftir vindi.

Össur Skarphéðinsson, sem er allt í senn þingmaður Alþýðuflokks, áhugamaður um sameiginlegt félagshyggjuframboð, svili Ingibjargar Sólrúnar og ritstjóri DV, ritar „fréttaskýringu“ um væntanlegt prófkjör R-listans í blað sitt á fimmtudag. Hann leggur þarna mat fréttahauksins á stöðuna í prófkjörinu. Einhverra hluta vegna virðist Össuri ekki þykja fyrirkomulag prófkjörsins undarlegt þótt flestir séu þeirrar skoðunar, en leggur ríka áherslu á nokkra unga menn sem hann virðist áhugasamur um að komist til metorða.

Öll eru fyrrgreind skrif Össurar í „fréttaljósi“ DV vitaskuld eðlileg og engum gæti komið til hugar að skoðanir eða hagsmunir höfundar hafi áhrif á hlutlaust fréttamat. Ekki frekar en þegar Svavar Gestsson, Páll Pétursson og Geir H. Haarde fara að skrifa „fréttaljós“ DV um borgarmál, en þeir munu væntanlega, líkt og Össur, verða ráðnir ritstjórar við hlið Jónasar Kristjánssonar áður en langt um líður.