Helgarsprokið 12. október 1997

285. tbl. 1. árg.
Prófkjör stjórnmálaflokka til vals á framboðslista eru alls ekki gallalaus leið. Þau hafa hins vegar þann kost að í þeim geta almennir flokksmenn haft áhrif á það hvernig listarnir eru skipaðir. Þátttaka í prófkjöri er þannig áhrifaríkasta leið kjósendanna til að velja einstaklinga til setu á Alþingi og í sveitarstjórnum, enda býður kosningakerfi okkar ekki upp á neina raunhæfa möguleika í því sambandi. Prófkjör eru því lýðræðislegasta aðferðin sem stjórnmálaflokkar geta notað til að velja frambjóðendur á lista (þótt þar með sé ekki sagt að þau leiði endilega til þess að bestu frambjóðendurnir taki sæti á lista).

Kosningabandalag vinstri flokkanna í Reykjavík hefur undanfarnar vikur verið að vandræðast með það hvaða aðferð eigi að nota til að finna frambjóðendur á R-listann næsta vor. Hafa þar annars vegar tekist á kratar, en innan þeirra flokks er hefð fyrir opnum prófkjörum, og hins vegar framsóknarmenn og alþýðubandalagsmenn, en forystumenn þessara flokka í borgarmálum virðast smeykir um að lýðhylli þeirra sé takmörkuð og möguleikar á góðum árangri í prófkjöri því hverfandi. Eftir langvarandi samningaviðræður komust þessir flokkar að þeirri niðurstöðu, að eina leiðin til að leysa málið væri að fela borgarstjóranum einum að ákveða aðferðina við val listans. Undir þetta beygðu fjórir stjórnmálaflokkar sig athugasemdalaust og fjölmiðlungar
létu eins og ekkert væri eðlilegra. Hefði þessi aðferð hins vegar verið valin af flokki á borð við Sjálfstæðisflokkinn er ekki vafi á
því að fjölmiðlar hefðu umhverfst og allir morgunþættir, síðdegisþættir og slúðurdálkar fyllst af umfjöllun um „einræði“, „gerræði“ og „valdhroka“. Ekkert slíkt gerðist nú, enda er Ingibjörg Sólrún eftirlæti vinstri sinnaðs fjölmiðlafólks.

Niðurstaða Ingibjargar Sólrúnar liggur nú fyrir og hefur verið samþykkt í svokölluðu „Samráði“ R-listaflokkanna. Niðurstaða Ingibjargar Sólrúnar var sú, að allir frambjóðendur R-listans þyrftu að fara í prófkjör, nema hún. Hún hygðist setjast í 8. sæti listans án þess að hugur stuðningsmanna flokkanna til þess væri kannaður. Þetta hefur hún endurtekið í fjölmiðlum af aðdáunarverðu sjálfsöryggi, sem sjálfsagt væri kallað „yfirlæti“ eða „valdhroki“ ef einhver annar stjórnmálamaður ætti í hlut, t.d. ef um væri að ræða forystumann í Sjálfstæðisflokknum. Ekki er að efa, að forystumönnum Alþýðubandalags, Framsóknarflokks og Alþýðuflokks í borgarmálum þyki það harla einkennilegt að þeir þurfi að berjast fyrir sínum sætum í prófkjöri á meðan borgarstjórinn getur valið sér sæti að vild, en hins vegar þegja þeir þunnu hljóði yfir þessu á opinberum vettvangi, enda trúa þeir því að með því að breiða yfir allt ósætti sín á milli geti þeir haldið völdunum í borginni.

R-listinn hafði hátt um lýðræðisumbætur í borgarmálum þegar hann bauð fyrst fram 1994. Í kosningaáróðrinum var þvaðrað fram og til baka um aukin áhrif borgarbúa, hverfastjórnir, umboðsmann borgarbúa og margt af sama toga. Niðurstaðan hefur orðið sú, að ekkert hefur gerst í þessum efnum. Ekkert, nema kannski það að fjölgað hefur verið um 20 manns í æðstu stjórn borgarinnar til takmarka aðgang embættismanna og annarra borgarstarfsmanna að borgarstjóranum sjálfum. Þá hefur beinn aðgangur borgarbúa að borgarstjóranum minnkað með umtalsverðri fækkun viðtalstíma. Lýðræðisástin birtist svo síðast í framangreindri ákvörðun um val framboðslista, þar sem allt vald er í raun falið einum einstaklingi.

Einn helsti  stuðningsmaður  Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur og R-listans við síðustu kosningar, Össur Skarphéðinsson, hefur verið í athyglisafvötnun í sumar. Ekki er annað að sjá en hann hafi náð tökum á hljóðnemasýkinni. Hefur nær ekkert til hans spurst undanfarna mánuði. Ekki nema að hann hafi orðið fyrir miklum vonbrigðum með R-listann þegar framkvæmdir við nýja bílasjoppu hófust fyrir utan stofuglugga hans á Vesturgötunni.