Mánudagur 13. október 1997

286. tbl. 1. árg.
Það er merkilegt hversu illa Steingrími Hermannssyni farnast þegar hann kemur nálægt einhverju grænu. Fyrst var það græna-baunamálið svokallaða, þegar hann hafði tekið fé frá Rannsóknarráði ríkisins og gefið út nótur fyrir grænum baunum. Síðan var það Framsóknarflokkurinn, en störf flokksins undir hans stjórn einkendist af stjórnlyndi og afturhaldi. Og nú síðast er hann farinn að hafa áhuga á grænni pólitík og lætur Seðlabankinn greiða fyrir skemmtiferðir sínar til að sinna honum.

Talið er að framsóknarmenn geti lent í vandræðum með að finna nýjan mann í seðlabankastjórastól Steingríms Hermannssonar, þegar hann neyðist til að segja af sér vegna notkunar á fé úr sjóðum bankans til að sinna áhuga sínum á „umhverfismálum“. Kunnugir segja, að fáir bitlingabærir menn séu lausir eftir bitlinga-orgíuna í kringum hlutafélagavæðingu viðskiptabankanna. Þó verði erfitt að líta framhjá Páli Péturssyni sem sé búinn að sitja það lengi á þingi, að samkvæmt kokkabókum framsóknarmanna ætti það að jafngilda doktorsprófi í hagfræði, eða að minnsta kosti meistaraprófi.

Á laugardagskvöldið hóf Ríkisútvarpið í hver-veit-hvaða sinn að senda út Spaugstofuna, sem nú heitir eitthvað allt annað. Í þættinum bar einna helst á því að aðstandendur þáttarins voru afar reiðir út í Björn Bjarnason menntamálaráðherra vegna stöðuveitingar hjá Ríkisútvarpinu. Var mjög gefið til kynna að ráðherrann hefði misnotað skipunarvald sitt til að skipa óhæfan flokksgæðing til starfa. Nú er yfirleitt ekki til siðs að gera efnislegar athugasemdir við skemmtidagskrár sem þessar, en svo mjög lögðu aðstandendur Spaugstofunnar á sig að segja þjóðinni að ráðherrann hafi misnotað aðstöðu sína að ekki verður komist hjá því að gera athugasemd. Menntamálaráðherra hefur á þessu ári komið að einni ráðningu hjá Ríkisútvarpinu, hann réð mann í starf framkvæmdastjóra hjá stofnuninni. Maður þessi hefur aldrei komið nálægt stjórnmálum á nokkurn hátt og ekki er vitað til að hann tengist ráðherra að nokkru leyti. Sú sem sótti um starfið gegn þessum manni heitir Ásdís Olsen. Eiginmaður hennar heitir Karl Ágúst Úlfsson og er leikari.

Leiðrétting: Þau leiðu mistök áttu sér stað hér í blaðinu í gær að því var haldið fram að Össur Skarphéðinsson hefði fengið meðferð og jafnvel einhverja lækningu við athyglissýki sinni. Glöggur lesandi benti hins vegar á að í síðustu viku hefði Össur verið í matreiðlsuþætti Sigga Hall á Stöð 2, í nýjum spurningarþætti í Ríkissjónvarpinu og í viðtali í tímaritinu Húsfreyjan. Össur er beðinn velvirðingar á þessum mistökum.