Ekkert er þó með öllu illt, eins og þar stendur, því um leið og röskvumennirnir á Stúdentablaðinu þurftu að fá þá útkomu sem um er rætt hér að ofan viðurkenndu þeir í fátinu að meirihluti námslánanna sem stúdentar fá séu styrkir. Það kemur fram hjá þeim að kostnaður ríkissjóðs vegna útlána LÍN sé 57%, þ.e. með því að niðurgreiða vexti styrkir ríkið námsmenn um rúmlega helming þeirrar upphæðar sem þeir taka að láni. Stundum hefur gengið erfiðlega að fá forsvarsmenn Stúdentaráðs til að viðurkenna þetta eins og annað sem snýr að efnahagsmálum og því ánægjulegt að þeir skuli loks hafa séð að sér.
Það þurfti heimsókn frá amerískum löggæslumanni til að umræðan um það ófremdarástand sem skapast í miðbæ Reykjavíkur að næturlagi um helgar kæmist í íslenska þjóðmálaumræðu af einhverri alvöru. Á forsíðu DV í vikunni var mynd af ungum manni vera að létta á sér utan í Alþingishúsið, eins og það gerist ekki á hverjum degi, eða um hverja helgi! Þrátt fyrir að lausnin á þessum vanda sé einföld virðast þeir sem um málið hafa fjallað eiga afar erfitt með að ramba á hana. Borgarstjórn vill láta koma upp myndavélum í miðbænum og leiðarahöfundur Morgunblaðsins kemur ekki auga á annan sökudólg en aukinn fjölda vínveitingahúsa í miðborginni. Helgarástandið í Reykjavík er mun eldra en flest þau vínveitingahús sem starfræk eru í borginni og ekki við þau að sakast, sérstaklega ekki þar sem mikið af þeim unglingum sem eru í bænum um helgar sækja ekki skemmtistaði, hafa heldur ekki aldur til þess. Það mætti halda að ritstjóri Morgunblaðsins hafi aldrei stigið fæti í erlenda stórborg þar sem öldurhús eru á hverju strái án þess að teljandi vandræði skapist af því. Miðbæjarvandamálið er eingöngu tilkomið vegna skerðingar á frelsi og verður eingöngu leyst með auknu frelsi. Opnunartími skemmtistaða þarf að vera frjáls, til að fólk þyrpist ekki allt út á götu á sama tíma (þá er heldur ekki eftir neinu að bíða fyrir unglingana sem hanga í bænum) Leigubílaakstur þarf að vera frjáls til að auka framboð leigubíla um helgar til að fólk komist heim til sín fljótt og örugglega að skemmtun lokinni. Leyfa þarf fullorðnu fólki á aldrinum 18-20 að kaupa áfengi til að það húki ekki í kuldanum. Auka þarf frjálsræði í áfengissölu og lækka verð á áfengi til að fólk byrji að umgangast það á skynsamlegan hátt, jafnframt því sem lækkað áfengisverð spornar við útbreiðslu á landa, sem getur ekki verið sá drykkur sem yfirvöld vilja beina neyslu fólks í, en hafa engu að síður gert. Að lokum þarf lögreglan að framfylgja íslenskum lögum og koma höndum yfir drukkið fólk sem er með óspektir á almannafæri.