Laugardagur 4. október 1997

277. tbl. 1. árg.
Í Deyi-með-tímanum, DT, síðastliðinn fimmtudag var spjallað við Erp Eyvindarson ungan jafnaðarmann. Erpur segist vera róttækur húmanisti, byltingarsinnaður, marxisti, Kropotkinisti og sósíalisti. Orðrétt segir svo: „Erpur segist styðja byltingu þar sem mannréttindi eru fótum troðin og segist hann ekki frá því að hann myndi styðja byltingu í Kína.“ Erpur er svo spurður að því hvort byltingar sé þörf á Íslandi. Og ekki stendur á svari: „Ég held það en spurningin er hvernig það á að fara fram.“

Í Þjóðviljanum heitnum voru tíðum miklar lofræður um stórmenni mannkynssögunnar á borð við Stalín og Kim Il Sung. Þrátt fyrir að vinstrimenn tali jafnan um að allir eigi að vera jafnir eru sumir auðvitað jafnari en aðrir. Þannig er það í nýjasta tölublaði Stúdentablaðsins sem tekið hefur við af Vikublaðinu arftaka Þjóðviljans enda var nýr ritstjóri Stúdentablaðsins blaðamaður á Vikublaðinu. Gefum Stúdentablaðinu orðið um ástsælustu leiðtoga ungra vinstrimanna:
1)Þar hefur nafn fjölmiðlamannsins góðkunna Skúla Helgasonar oft verið nefnt og víst að ferskur blær myndi fylgja honum. 2)Skúli hefur getið sér gott orð fyrir síðdegisþáttinn Þjóðbrautina á Bylgjunni… 3)Enda skeleggur í stúdentapólítíkinni með Röskvu fyrir fáum árum.
4)Frábær árangur Vilhjálms H. Vilhjálmssonar, fyrrum formanns Stúdentaráðs í fótbolta hefur vakið mikla athygli í sumar. 5)Vilhjálmur er ein skærasta stjarnan á vinstrikanti stjórnmálanna… 6)Annars er það að frétta af Vilhjálmi að hann tók upp þráðinn í laganáminu og náði haustprófunum með miklum elegans.
7)Róbert Marshall lætur af formennsku (ungra alþýðubandalagsmanna) eftir tveggja ára farsælt starf… 8)Þorvarður Tjörvi Ólafsson stjórnmálafræðinemi er helst nefndur til sögunnar sem næsti formaður. 9)Tjörvi hefur starfað vasklega innan Alþýðubandalagsins og þykir verðugur arftaki Róberts.
Halelúja.

Þá segir ritstjóri Stúdentablaðsins, Björgvin G. Sigurðsson, sem einnig hefur verið á launum hjá Mannlífi og liðsmaður Grósku að Mannlíf sé „einfaldlega sjóðheitt og krassandi tímarit sem enginn getur látið fram hjá sér fara“ enda „mánuð eftir mánuð fullt af spennandi og skemmtilegu efni“ og síðast en ekki síst er „mikillar flugeldasýningar að vænta hjá Grósku á næstunni“ en þá „verður fróðlegt að sjá hvaða lendingum Gróska nær í heitum málum…“