Föstudagur 3. október 1997

276. tbl. 1. árg.
Það er löngu orðið tímabært að verkalýðshreyfingin setji fram tillögur um það hvernig tryggja megi hagsæld hér á komandi árum svo hægt verði að greiða fólki mannsæmandi kaup. Til þess þarf að minnka ríkisútgjöld verulega og lækka skatta. Það gengur ekki lengur að skýla sér á bakvið orð eins og „samneysla“, því stór hluti ríkisútgjaldanna fer í einkaneyslu vel skilgreindra þrýstihópa. Auk þess má spyrja hvort „samneysla“ sé virkilega verjandi siðferðilega, þegar við sendum komandi kynslóðum reikninginn?

Margir álíta það nánast goðgá að ræða um einkavæðingu í velferðarkerfinu. Það sjónarmið er til vitnis um mikla skammsýni, það er eins og menn spyrji sig ekki hver tilgangur kerfisins sé, heldur hengi sig í að standa vörð um óbreytt ástand. Tilgangur velferðarkerfins er ekki að halda uppi stofnunum sem veita þjónustu heldur að tryggja fólki aðgang að þjónustu. Því ber að leita leiða til að veita þessa þjónustu á sem hagkvæmastan hátt. Með því að einkavæða stofnanir og leyfa samkeppni um að veita þjónustuna má beisla krafta frjálsrar samkeppni í þágu velferðarkerfisins. Ætla má að það leiddi til meiri hagkvæmni og fjölbreyttari þjónustu sem lagaði sig betur að þörfum notenda. Kynni að vera að þeir sem berja sér á brjóst opinberlega og segja að velferðarkerfið megi aldrei einkavæða séu fremur skrifræðis- en velferðarsinnar?

Sú röksemd hefur heyrst gegn einkavæðingu velferðarkerfisins að það sé óviðurkvæmilegt að setja verð á þessa þjónustu. Þessi röksemdarfærsla missir þó alveg marks þar sem þessi þjónusta hefur kostnað í för með sér og þá er vissulega verð á henni, þó það sé ósýnilegt. Verðið sem við greiðum fyrir velferðarkerfið eru hærri skattar, minni fjárfesting og þar með minni hagvöxtur. Fjármagnið sem við höfum til ráðstöfunar er takmarkað og því er mikilvægt að því sé sem best varið. Meiri hagkvæmni þýðir ekki minni þjónusta heldur að minnu sé til kostað og þá er möguleiki að veita meiri þjónustu – eða nota peningana í eitthvað annað. Samkeppni myndi leitast við að sníða þjónustuna betur að óskum neytenda, með sem minnstum tilkostnaði. Það að neita að horfast í augu við verðið er eins og nota greiðslukort og neita að skoða upphæðirnar á nótunum. Það kann að veita þægindi til skamms tíma, en þegar lengri tíma er litið endar það með ósköpum.