Það er áhyggjuefni að blaða- og tímaritaútgáfa hefur átt undir högg að sækja að undanförnu. Nýjasta áfallið fyrir þessa atvinnugrein er hækkun Pósts og síma á póstburðargjöldum. Póstur og sími skýlir sér bakvið kostnaðarútreikninga sína á þessari þjónustu en sú röksemd er léttvæg þar sem um ríkiseinokunarfyrirtæki er að ræða. Eina leiðin til að vita hvað póstþjónustan kostar raunverulega er að einkavæða hana og leyfa samkeppni í póstflutningum. Það er raunar með ólíkindum að ríkið skuli hafa einkaleyfi á þessari þjónustu. Dagblöð hafa verið með sambærilega þjónustu áratugum saman og er ekkert sem bendir til að sú þjónusta hafi verið óáreiðanlegri en þjónusta Pósts og síma, þvert á móti eru blöðin borin út 6 sinnum í viku á meðan pósturinn kemur aðeins 5 sinnum.
DV greinir frá því á mánudaginn að meiri líkur séu á sveinbarni með tíðari samförum. Nú er það staðreynd að drengir eru mun erfiðari viðfangs en stúlkur og ættu því að tempra löngun foreldra sinna í fleiri börn. Skyldi þetta vera leið náttúrunnar til að hemja hormón mannfólksins?
Því hefur gjarnan verið haldið fram af ríkisafskiptasinnum að réttlætanlegt sé að reka ríkissjóð með halla þegar illa árar. Nú erum við Íslendingar í miðju góðæri og því verður fróðlegt að fylgjast með við fjárlagerðina hversu margir þeirra munu berjast fyrir því að fjárlög verði afgreidd með tekjuafgangi til að greiða niður erlendar skuldir.
|