Miðvikudagur 1. október 1997

274. tbl. 1. árg.
Fátt kemur jafn illa við fólk og sú staðreynd að stór hluti mannkyns búi við eða undir hungurmörkum. Vesturlönd hafa reynt að bregðast við þessum vanda með svokallaðri „þróunaraðstoð“. Í nýlegri skýrslu, HELP OR HINDRANCE: Can Foreign Aid Prevent International Crises?, sem Doug Bandow skrifar fyrir Cato Institute færir hann rök að því að það sé frjálst hagkerfi en ekki aðstoð erlendis frá sem gerir þjóðir bjargálna. Ástæðurnar fyrir þessu er að ríkisstjórnir vanþróuðu þjóðanna eru engu betur til þess fallnar að stýra hagkerfinu en ríkisstjórnir þeirra landa sem þróaðri eru. þróunaraðstoð hefur oft fallið í skaut spilltra stjórna sem hafa útbýtt peningunum í gæluverkefni og þannig beint hagkerfinu inn á óæskilegar brautir. En jafnvel þar sem ekki hefur verið um spillingu að ræða, hafa stjórnmálamenn ekki haft við markaðsverð að styðjast til að beina fjármagninu í sem hagkvæmastan farveg.

Þrátt fyrir að Bandaríkin hafi varið eitt þúsund milljörðum dollara (þetta er ekki misritun, 1.000.000.000.000 dollara,) í þróunaraðstoð á árunum eftir stríð eru flest ríkin sem hafa þegið hana verr sett en áður. Við Íslendingar þáðum mikið fé í svokallaðri Marshall aðstoð. Samkvæmt hefðbundinni söguskoðun er hún grunnurinn sem var lagður að velmegun okkar daga. Þegar nánar er að gáð sést að á meðan við fengum Marshall aðstoðina þá var henni sóað í að halda uppi spilltu efnahagskerfi þar sem flokksgæðingar skiptu á milli sín utanríkisversluninni. Ísland fór ekki að ná árangri í efnahagsmálum fyrr en eftir að aðstoðinni lauk og höftunum var aflétt.

Því er gjarnan haldið fram að þróunaraðstoð sé nauðsynleg til að tryggja stöðugleika. Þegar litið er á fyrri árangur kemur í ljós að flestar þær þjóðir sem hafa orðið borgarastríði að bráð á undanförnum árum hafa hlotið verulega þróunaraðstoð. Dæmi um það eru Angóla, Búrúndí, Chad, Eþíópía, Haítí, Líbería, Rúanda, Síerra Leóne, Sómalía, Srí Lanka, Súdan og Júgóslavía. Það sem Vesturlönd geta gert til að hjálpa vanþróuðum þjóðum er að veita þeim aðgang að mörkuðum sínum svo þær geti, rétt eins og við gerðum á Viðreisnarárunum, búið í haginn fyrir frjálst og opið hagkerfi.

Í grein í Newsweek 29. september heldur Pranay Gupte því fram að 70% af framlögum Sameinuðu þjóðanna til þróunarmála fari í launa- og stjórnunarkostnað. Það væri fróðlegt að sjá úttekt á hvert þetta hlutfall er á Íslandi?