Þriðjudagur 30. september 1997

273. tbl. 1. árg.
Í fréttum  í gærkveldi var sagt frá tillögu umboðsmanns barna þess efnis að kynlíf ungmenna innan 16 ára  aldurs verði refsivert athæfi. Ef þessi tillaga nær fram að ganga mun 15 ára stúlka sem verður barnshafandi eftir 15 ára kærasta sinn ekki  aðeins stungið í steininn heldur verður feðrun barnsins að einskonar sakbendingu! Og þegar rimlahurðin á klefa föðursins skellur aftur hafa hugtökin „tugthúslimur“ og „fæðingarorflof feðra“ vissulega fengið nýja merkingu.

Nú að undanförnu hafa margar „umönnunarstéttir“ boðað verkföll. Það veldur miklum glundroða þegar þessar stéttir boða verkfall enda hafa þær tök á að valda miklu tjóni ef þær láta til skarar skríða. Nú er það deginum ljósara að kjör þessara stétta eru ekki góð, en það er jafnframt ljóst að ríki og sveitarfélög eru ekki í stakk búin til að greiða mikið hærra kaup. Viðkomandi stéttarfélög hafa brugðist skakkt við vandanum. Í stað þess að standa vörð um óbreytt kerfi ættu þau að berjast fyrir róttækum breytingum. Það mundi koma sér miklu betur fyrir þessar stéttir ef þjónustan sem þær veita yrði einkavædd (hvort sem að ríkið kostaði hana að hluta eða öllu leyti) því þá myndi myndast markaðsverð á vinnuafli þeirra.

Fjárhagsvandi ríkis og sveitarfélaga sýnir svo að ekki verði um villst að opinberir aðilar hafa tekist á hendur miklu fleiri verkefni en þeir valda. Því skýtur skökku við að samtök opinberra starfsmanna skuli ekki vera duglegri að berjast fyrir niðurskurði og sparnaði. Það er ljóst að gæðin eru takmörkuð og því þarf að takmarka aðganginn að þeim. Það sem opinberir starfsmenn ættu að berjast fyrir núna er að opinberum gæluverkefnum eins og jarðgangagerð og Byggðastofnun verði hætt. Þeir ættu jafnframt að krefjast þess að innflutingshöft verði felld niður og að opinberir  fjárfestingarsjóðir verði einkavæddir. Síðast en ekki síst ættu þeir að fara fram á að reglugerðafarganinu verði lyft og skattar lækkaðir svo að einkageirinn fái svigrúm til að fjármagna þá þjónustu sem hið opinbera hefur á sinni könnu.

Oft ratast kjöftugum satt á munn og þótt ótrúlegt kunni að virðast á þetta einnig við Brynjólf heitinn Bjarnason sem var leiðtogi stalínista á Íslandi um áratuga skeið. Í viðtalsbókinni Brynjólfur Bjarnason: Pólitísk ævisaga, komst Brynjólfur svo að orði: „Í auðvaldsheiminum eru verkföll daglegt brauð. Óhemju verðmætum er kastað á glæ engum til gagns. Framleiðslan og nauðsynleg samskipti manna stöðvast í framleiðslukerfi, sem er svo margþætt og samtvinnuð heild, að ef einn þátturinn er tekinn úr sambandi, getur allt þjóðfélagið farið úr skorðum. Fyrir þau verðmæti, sem þannig glatast, mætti gera líf þeirra bærilegt, sem nú búa við sára fátækt eða neyðarkjör. Er þetta háttur viti borinna manna? Enginn svarar þeirri spurningu játandi. Þar eru allir sammála. Samt halda menn áfram að haga sér svona.“
Brynjólfur sá glöggt að verkfallsvopnið er svipan sem að verkalýðsrekendurnir beita á launafólk. Og í krafti hvers gera þeir það? Jú, með lögboðinni nauðungaraðild að félögunum. Þetta sá Brynjólfur að vísu ekki því hann hélt áfram: „Og þessu verður ekki breytt, meðan við búum við þjóðskipulag, sem er klofið í botn með þeim hætti að yfirráðin yfir framleiðslutækjunum eru í höndum annarra en þeirra, sem vinna við þau, framleiðendanna sjálfra.“ En þessi greining Brynjólfs stenst engan veginn, því verkföll eru nú miklu oftar háð af opinberum starfsmönnum (fyrirtækjum sem eru í eigu „fólksins sjálfs“) en í einkageiranum. Þó kom hann orðum að hinni raunverulegu rót, þ.e. að þeir sem geta stöðvað þjóðlífið beita þessu ofbeldi. Lausnin á þessum vanda er að afnema þá arfleið gilda-sósíalismans að verkalýðsfélögin „eigi“ ákveðin störf og enginn megi ganga í þau ef þeir sem eiga að sinna þeim ákveða að gera það ekki.