Mánudagur 6. október 1997

279. tbl. 1. árg.
Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins hefur sett á fót skrifstofu hér á landi til að hjálpa íslenskum fyrirtækjum að snapa styrki úr sjóðum sambandsins. Apparatið heitir MIDAS-NET. Skyldi nafnið vera vísun í örlög konungsins sem var svo hrokafullur og fégráðugur að bjóða náttúrunni birginn? Er Evrópusambandið ekki að bjóða markaðsöflunum birginn með MIDAS-NET?

All nokkuð hefur verið rætt um Ríkisútvarpið að undanförnu. Menn hafa þó fyrst og fremst beint sjónum sínum að valdníðslu framsóknarmanna þegar þeir tróðu Hegla H. Jónssyni í stöðu fréttastjóra með fulltingi félagshyggjuaflanna í útvarpsráði, vegna þess eins að hæfari umsækjandinn var grunaður um að vera í Sjálfstæðisflokknum. Slíkt eftirlit með stjórnmálamönnum er vissulega nauðsynlegt, en ekki líklegt til að skila varanlegum árangri. Menn verða að spyrja sig: Til hvers að hafa ríkisútvarp? Er það virkilega hlutverk ríkisins að reka poppstöðina Rás 2? Og miðað við fjölmiðlaflóruna í dag er þá þörf á að ríkið annist fréttaflutning? Og er þörf á að RÚV reki tvær fréttastofur? Sérstaklega þegar við sjáum að pólitískum agentum R-listans er troðið í stöðu fréttastjóra óháð hæfileikum! Það er kominn tími til að þjóðin hætti að rífast um RÚV og selji það. Ef menn aftur, á móti telja að ríkið hafi menningarlegu hlutverki að gegna, og beri að hlúa að íslenskri tungu og menningararfleið, þá getur það styrkt gerð vandaðs efnis, en það þarf ekki að eiga miðilinn sem flytur það.

Í Morgunblaðinu í gær er óvenju jarðbundinn og yfirveguð umfjöllun um svonefnd gróðurhúsaáhrif. Yfirleitt fá æsingamenn úr röðum umhverfisverndarsinna að básúna um heimsendaspár sínar óáreittir en í þessu tilviki er rætt við nokkra vísindamenn sem kynnt hafa sér málið. Í greininni segir t.d.: „Sumir benda á að hætt sé við að stjórnlyndir ráðamenn víða um heim hafi ekkert á móti því að ráðskast meira með almenning, stýra þróuninni og ákveða lífstílinn fyrir aðra. Umhverfisvernd sé ekki verra yfirvarp en hvert annað.“ Trausti Jónsson, veðurfræðingur segir m.a.: „Ég óttast að þarna geti enn einu sinni verið á ferðinni forsjárhyggja og sú árátta stjórnmálamanna að seilast í vasa skattborgaranna.“
Af grafi með umfjölluninni má ráða að hitastig á yfirborði jarðar hafi hækkað um brot úr gráðu frá árinu 1860. Ef betur er rýnt í grafið sést að stærstur hluti þessara hækkunar var fyrir 1940 þ.e.a.s. áður en mest aukning varð í útblæstri gróðurhúsalofttegunda af manna völdum.