Fimmtudagur 25. september 1997

268. tbl. 1. árg.
R-listinn er um þessar mundir að auka útgjöld um 700 milljónir króna ef marka má grein borgarfulltrúa D-listans, Vilhjálms Þ. Vilhjálmssonar, í Mogganum á þriðjudaginn var. Þessar krónur eiga að fara í risastórt listasafn í hafnarhúsinu, sem m. a. á að hýsa gjöf Errós. Rekstrarkostnaður hússins verður svo líklega tugir milljóna króna á ári hverju það sem eftir er, svona rétt til að auka á ógleði skattgreiðenda. Það er makalaust hversu auðvelt þrýstihópar virðast eiga með að komast í vasa skattgreiðenda í gegnum stjórnmálamenn og er R-listinn því miður ekki einsdæmi. Þannig hefur menntamálaráðherra t.a.m. skipað nefnd til að fjalla um byggingu tónlistarhúss og þótt ekki hafi enn verið ákveðið að af byggingu þess verði er ljóst að slík ráðstöfun ráðherra er ekki til þess fallin að minnka líkur þess að skattfé verði notað í þetta verkefni. Borgarstjóri og ráðherra geta svo þegar þar að kemur klippt hvor á sinn borða og vænst velvilja viðkomandi hagsmunahóps að launum. Skattgreiðendur sitja aftur á móti eftir með svartapéturinn.

Í Vestmannaeyjablaðinu Fréttir þann 4. september síðastliðinn er sagt frá því að Vestmannaeyjabær hafi tekið upp húsaleigubætur. Það er þó tekið fram í fréttinni að einungis fáist bætur fyrir þá leigu sem talin er fram!

Athugasemd við Veiðigjald, VII. af IX: Hin svokallaða hollenska veiki, sem eðlilegra væri að kalla hollensku gyllinæðina, er ein af röksemdum Þórólfs fyrir auðlindaskatti. Hún gengur í sem skemmstu máli út á að ríkið eigi að hægja á tilfærslum á fjármagni í hagkerfinu ef verðmæt auðlind verður skyndilega til. Þessi trú á afskiptum ríkisins af hagkerfinu er vægast sagt undarleg. Það hefur hvergi orðið til heilla að ríkisvaldið grípi inn í með þeim hætti og engin ástæða til að ætla að stjórnmálamenn sjái betur fyrir breytingar á aðstæðum í hagkerfinu en einstaklingar og fyrirtæki í frjálsri samkeppni á markaði. Þekking stjórnmálamanna á aðstæðum er óhjákvæmilega af skornum skammti og síður í samræmi við aðstæður líðandi stundar en þeirra sem taka ákvarðanir á markaði. Það kann vissulega að vera rétt að í tilfelli Hollands hafi markaðurinn ekki náð að spá rétt fyrir um atvinnuþróun, það er þó síður en svo röksemd fyrir því að ríkinu geti tekist betur til. Þvert á móti er það líklegt til að leiða til allrar þeirrar óhagkvæmni sem að áætlunarbúskap ríkisins fylgir.