Miðvikudagur 24. september 1997

267. tbl. 1. árg.
Það er alkunna að margir alþingismenn hafa gaman af því að setja saman vísur, ýmsir þeirra eru ágætir í því, en aðrir mun verri. Hingað til hafa menn tekið þessu sem saklausu gamni, en stöku kverúlant reynt að dæma fagurfræðilegt gildi vísnanna. Það kom þó í ljós í gær, þegar Halldór Blöndal fór að kveðast á við Ingibjörgu Sólrúnu að hér er mun alvarlegra mál á ferðinni en margur hafði ætlað. Til að ríma við „frú“ þurfti Halldór að lofa heilli Gullinbrú. Nú er maður loks farinn að skilja hvers vegna Vestfjarðagöngin voru grafin…

Það er gjarnan talað um að skipta megi þegnunum í tvennt: Þá sem greiði skatta og þá sem hafi framfæri sitt af hinu opinbera. Það vekur óneitanlega athygli í þessu sambandi að nánast allir þeir sem hafa mælt með auðlindaskatti, þ.e. aukinni skattheimtu, skuli vera opinberir starfsmenn eða á framfæri hins opinbera á einhvern annan hátt t.d. í skóla, ríkisstyrktum fjölmiðlum eða tugthúsi.

Athugasemd við Veiðigjald, VI. af IX: Þórólfur heldur því fram að ef sérstakur skattur á útgerðarmenn verði ekki lagður á muni rentusókn aukast. Til að skýra hugtakið rentusókn er mönnum bent á að lesa grein Þórólfs. Hún sýnir einmitt menntamann sem sér ofsjónum yfir velgengni útgerðarmanna og vill því beita ríkinu fyrir sig til að láta skattleggja þá sérstaklega og færa sér hluta auðsins! En það er beinlínis rangt hjá Þórólfi að rentusókn muni minnka við það að auðlindaskattur verði lagður á. Þvert á móti mun hún stóraukast. Því öfugt við það sem er í dag, að þeir sem afla auðsins ráðstafa honum, þá mundi ríkið gera auðinn upptækan og síðan mundu þegnarnir berjast um það á vettvangi stjórnmálanna hvernig honum skyldi ráðstafað. Auk þess væru frekar meiri hagsmunir en minni til að berjast annars vegar fyrir lækkun skattsins og hins vegar hækkun hans. Það er spurning hverju svona málflutningur skilar og hvort hann er ekki líklegur til að valda gremju meðal skattgreiðenda og fá þá til að spyrja sig hvort það sé til nokkurs að verja stórfé í Háskóla Íslands.