Þriðjudagur 23. september 1997

266. tbl. 1. árg.
Í nýjasta tölublaði Stefnis er þýdd grein úr bókinni „Defending the Undefendable“ eftir Walter Block. Í greininni er m.a. rætt um kynferðislega áreitni án líkamlegs ofbeldis. Þar segir:„Rétt eins og greiða verður fólki sárabætur fyrir að vinna í skítugri kjallaraholu verður að greiða fólki aukalega fyrir að þola kynferðislega áreitni á vinnustað. Þessi aukagreiðsla kemur úr vasa forstjóra fyrirtækis ef það er í einkaeign og hann hefur því beinan hag af því að halda áreitni sinni og annarra starfsmann í lágmarki.
En í ríkisfyrirtækjum blasir við önnur sjón. Sárabæturnar eru greiddar úr vösum skattgreiðenda og þangað eru þær sóttar með ofbeldi. Forstjóri ríkisfyrirtækis hefur því litla ástæðu til að hemja sig og aðra starfsmenn. Það er því kristalklárt að ríkisrekstur gerir áreitni án beins ofbeldis auðveldari en ella.“

Athugasemd við Veiðigjald, V. af IX: Eins og kom fram í IV. athugasemd er Þórólfur þeirrar skoðunar að auðlindaskattur geti verið trygging gegn áhættu. Hann segir að þetta sé dæmi um tryggingu sem einstaklingar mundu aldrei selja. Fyrstu andmælin við þessa kenningu Þórólfs eru einfaldlega þau að furðulegt er að ríkið eigi að „selja“ þessa tryggingu ef einstaklingar mundu aldrei selja hana. Önnur andmælin eru þau að það er beinlínis rangt að einstaklingar veiti ekki þessa tryggingu. Það hafa þeir þvert á móti gert í aldaraðir, en þó þannig að komist er hjá siðferðiskreppu (e. moral hazard). Einkaaðilar hafa ekki valið að selja beina tryggingu heldur að markaðssetja áhættuna með framvirkum samningum. Þótt ekki sé virkur markaður með þá hér á landi eru tvær leiðir fyrir íslenska útgerðarmenn til að nýta sér slíkan markað. Annars vegar með því að nota slíka samninga við olíukaup á heimsmarkaði til að verja sig gegn hækkunum olíuverðs eða með gjaldeyrissamningum til að verja sig gegn gengisbreytingum. Hins vegar er langtíma kaupsamningur í raun alltaf þessarar tegundar. Með því er átt við að það er vitanlega samið um hvort verð er haft fast eða sveigjanlegt og fyrir það er greitt með hærra eða lægra vöruverði eftir því hvort menn vænta verðhækkunar eða -lækkunar.
Þá er nauðsynlegt að nefna það að öfugt við það sem Þórólfur virðist gera ráð fyrir er alltaf hætta á siðferðiskreppu í sambandi við tryggingar. Tryggingar gegn þeirri áhættu sem hér um ræðir eru að þessu leyti ekki í eðli sínu frábrugðnar öðrum tryggingum.