Föstudagur 26. september 1997

269. tbl. 1. árg.
Á Rás 2 á mánudag var rætt við Pétur Má Ólafsson, bókmenntafræðing hjá Vöku-Helgafelli. Tilefnið var að forlagið er að gefa nokkur rit Halldórs Laxness út í pappírskiljum. Þegar búið var að kynna ritin spurði útvarpsmaðurinn af rælni hvort einhver hefði kvartað yfir því að verk Nóbelskáldsins væru gefin út í þessháttar útgáfum, hvort einhverjum þætti það vanvirða við skáldið. Pétur taldi það af og frá og nefndi til staðfestingar að flestir helstu rithöfundar erlendis hefðu komið út með þeim hætti. Allt í lagi. Vef-Þjóðviljinn vill, fyrst svo er, hvetja Vöku-Helgafell til að gefa sem fyrst út í alþýðlegri pappírskilju rit Halldórs Laxness, Íslendíngaspjall, þar sem segir: „Hlutfall milli mannfjölda og upplagsstærðar hefur þó raskast á síðustu árum við tilkomu pappírsbökunnar í stærri löndum, en það eru bækur handa fátækum lesurum sem ekki eru bókamenn, tam. mjaltastúlkum til sveita eða reiðhjólasendlum stórbæanna. Þessar bækur eru prentaðar á hræmuglegan pappír og í alla staði ljótar og leiðar svo skömm er að láta slíkt sjást uppí hillu hjá sér, og kosta álíka mikið og hálfur diskur af súpu. Margir útlendir höfundar hafa samt haft ástæðu til að fagna þessari forpokun bóka með þeim rökum að mart smátt geri eitt stórt.“

Á miðvikudag mælti meirihluti útvarpsráðs Ríkisútvarpsins með því að Helgi H. Jónsson yrði gerður að fréttastjóra Ríkissjónvarpsins. Færðu þeir fram til rökstuðnings að Helgi væri varafréttastjóri og þ.a.l. rétt að gera hann að fréttastjóra. Nú má vel vera að þessir útvarpsráðsmenn hafi fylgst gaumgæfilega með störfum Helga sem varafréttastjóra og líkað vel, en af ágæti starfa hans fyrir Sjónvarpið fer þá tvennum sögum. Helgi H. var einnig varafréttastjóri þegar Ingvi Hrafn Jónsson var fréttastjóri. Ingvi Hrafn gaf síðan út bók þar sem hann sagði sögu fréttastofunnar á þeim árum. Er þar ekki dregin upp fögur mynd af Helga H. Jónssyni og störfum hans fyrir Ríkissjónvarpið. Segist Ingvi Hrafn hafa barist „blóðugri baráttu“ (Bls. 168) við þennan næstæðsta starfsmann sinn, sem hafi ágirnst starf hans og reynt að grafa undan yfirmanni sínum, fréttastjóranum. Helgi H. Jónsson var staðgengill fréttastjóra og Ingvi Hrafn lýsir aðkomu sinni úr leyfi svona: „Þegar ég hóf aftur störf á fréttastofunni verð ég að viðurkenna að mér varð í meira lagi bylt við. Fyrstu dagana komu starfsmenn á fréttastofunni, fréttamenn sem aðrir til mín einn af öðrum og báðu um einkafundi til að kvarta yfir framkomu Helga H. Jónssonar og sögðu að ég hefði ekki fyrr verið búinn að afhenda honum lyklana að fréttastjóraherberginu er hann var kominn á fulla ferð við að reyna að grafa undan mér og gefið það til kynna beint og óbeint að það færi að styttast í það að ég færi úr þessum stól og að líkurnar fyrir því að hann settist í hann væru yfirgnæfandi og það væri rétt fyrir fólk að gera sér grein fyrir því að hann væri maður framtíðarinnar á fréttastofunni.“ (Bls. 156).

Ingvi Hrafn hefur fleira um störf Helga H. Jónssonar að segja. Hann lýsir honum sem „manni sem ég taldi skjalfestar sannanir fyrir að hefði beint eða óbeint misnotað fréttatíma Sjónvarpsins“ (Bls. 6) og fréttamenn hefðu verið „næstum kjökrandi yfir meðferðinni sem þeir höfðu sætt af hálfu varafréttastjórans“ (Bls. 7). Þá hefur Ingvi Hrafn eftir Ingimari Ingimarssyni fréttamanni og þáverandi aðstoðarframkvæmdastjóra Sjónvarpsins að á fréttastofu útvarpsins hafi menn „setið og hlegið að því að Helgi H. Jónsson væri að misnota aðstöðu sína hjá Sjónvarpinu“ (Bls. 173). Ummæli Ingimars spunnust í tilefni af því að Helgi var einn þriggja eigenda kynningarfyrirtækis er tók að sér kynningarverkefni fyrir menn og sagði svo fréttir af viðskiptavininum í fréttatímum Sjónvarpins.
Vef-Þjóðviljinn býður nýja fréttastjórann velkominn til starfa…