Laugardagur 20. september 1997

263. tbl. 1. árg.
Kjartan Magnússon skrifar grein í Morgunblaðið…
í gær undir fyrirsögninni „Atkvæðaseðillinn sem breyttist í gíróseðil“ þar sem hann rifjar upp að Ingibjörg Sólrún Gísladóttir lofaði því fyrir síðustu kosningar að R-listinn myndi ekki hækka skatta. Kjartan segir svo: „Eins og kunnugt er urðu efndirnar þær að R-listinn hækkaði álögur á Reykvíkinga um leið og hann náði völdum. Holræsaskattur var lagður á við afgreiðslu fyrstu fjárhagsáætlunar listans og nemur hann nú um 18 þúsund krónum á ári fyrir hverja meðalfjölskyldu. Á kjörtímabilinu mun því hver fjölskylda sturta niður 70-80 þúsund krónum í klósettskatt R-listans. Atkvæðaseðill greiddur R-listanum breyttist þannig í gíróseðil.“ Þess má geta að fullvíst þykir að Kjartan verði einn af þátttakendum í prófkjöri sjálfstæðismanna í Reykjavík í lok næsta mánaðar.

Athugasemd við Veiðigjald, III. af IX: Þórólfur setur fram „réttlætisrök“ fyrir auðlindaskatti á sjávarútveg og leggur þar einna mesta áherslu á kostnað hins opinbera við að halda uppi eftirliti. „Sé veiðigjald ekki innheimt er líklegt að kostnaður þeirra sem ekki fengu úthlutað veiðileyfum við að halda uppi kerfinu geti orðið miklu meiri en ávinningur þeirra af kerfinu,“ segir hann. Hann veltir því jafnframt upp hvort meirihluti kjósenda mundi þá ekki bara vilja láta af öllum afskiptum af kerfinu. Þarna ályktar Þórólfur út frá því að „líklegt“ sé að kostnaður sé meiri en ávinningur fyrir þá sem ekki fengu úthlutað kvóta, án þess þó að gera nokkra tilraun til rökstuðnings. En jafnvel þótt menn gefi sér rökræðunnar vegna að Þórólfur hafi rétt fyrir sér um þetta atriði þá þýðir það ekki að leggja beri á auðlindaskatt. Hið opinbera heldur uppi margs konar eftirliti, þ.á.m. með bílaumferð eins og Þórólfur nefnir sjálfur. Það er alls ekki víst að maður sem fer allra sinna ferða á tveimur jafnfljótum hagnist á eftirliti með bílaumferð eða að maður sem aldrei fer út fyrir Reykjavík sjái sér hag í radarmælingum í Húnavatnssýslu. En jafnvel þótt reynt væri að láta hvern og einn einungis greiða fyrir þá þjónustu sem nýtist honum þýðir það ekki að leggja ætti á auðlindaskatt sem nemur allri auðlindarentunni, heldur einungis hæfilega mikinn til að standa undir kostnaði við eftirlit. Þá er í þessu sambandi rétt að benda á að fyrirtæki í sjávarútvegi eru ekki skattfrjáls í dag heldur greiða drjúgar upphæðir í sameiginlega sjóði, bæði með sama hætti og önnur fyrirtæki en auk þess með sértækum gjöldum.