Föstudagur 19. september 1997

262. tbl. 1. árg.
Athugasemd við Veiðigjald, I. af IX – inngangur:Auðlindaskattur á sjávarútveg er umræðuefni í grein Þórólfs Matthíassonar sem ber það sakleysislega heiti Veiðigjald og birtist í nýjasta tölublaði Fjármálatíðinda. Greininni er ætlað að veita yfirlit yfir helstu röksemdir með auðlindaskatti á sjávarútveg og sannfæra þá, sem ekki hafa fallist á þær, með því að birta þær allar á einum stað. Í greininni er því fátt nýtt, en margt hæpið sem ástæða er að gera athugasemdir við. Hér á síðunni verður því næstu daga gripið á nokkrum stöðum niður í grein Þórólfs og hún gagnrýnd í þeirri von að efla og bæta umræðuna um þessi mál.

Athugasemd við Veiðigjald, II. af IX: Sveigjanleiki er eitt af því sem Þórólfur telur til kosta auðlindaskatts á sjávarútveg Íslendinga vegna þess að hugsanlegt sé að við viljum einhvern tímann breyta um fiskveiðistjórnunarkerfi. Með því að leggja á auðlindaskatt væri hægt að lækka verð á kvótanum í viðskiptum milli manna, þ.e.a.s. gera kvótann minna virði fyrir eigendur hans. Þetta þýddi að hið opinbera gæti leyst til sín veiðiréttindin fyrir mun lægra verð en ella ef breyta ætti um fiskveiðistjórnunarkerfi. Þetta er rétt svo langt sem það nær, en einskorðast vitaskuld ekki við kvóta. Þannig tekur hið opinbera hús manna stundum eignarnámi, t.d. vegna þess að það stendur þar sem leggja á veg. Vissulega væri útgjaldaminna fyrir hið opinbera að gera hús landsmanna verðlaus með ofurháum eignarsköttum en að þurfa að greiða núverandi verð fyrir þau. Þó dettur engum manni í hug að leggja slíkt til. Engu skárra er að gera eigur manna í veiðiréttindum verðlausar til að ódýrt sé að ná þeim af eigendunum síðar ef þurfa þykir. Gildi þess að skilgreina séreignarrétt er einmitt að minnka óvissuna um framtíðar arðhlutdeildar af auðlindinni, en með því að minnka þá óvissu hækkar verð hennar. Hugmynd Þórólfs minnkar því verðmæti auðlindarinnar.