Fimmtudagur 18. september 1997

261. tbl. 1. árg.
Tryggvi Líndal, þjóðfélagsfræðingur, hefur farið mikinn…
í blöðum undanfarna daga þar sem honum hefur verið neitað um aðild að Hvöt, félagi sjálfstæðiskvenna í Reykjavík. Hefur Tryggvi haldið því fram að um einhvers konar fasisma eða misrétti sé að ræða. Svo er þó alls ekki. Hefur Tryggvi freistað inngöngu í búningsklefa kvenna í sundlaugunum? Hefur hann pantað tíma í leikfimi hjá Baðhúsi Lindu? Hefur hann heimtað aðild að saumaklúbbum kvenna víðsvegar um borgina? Hefur hann sótt um aðild að félögum ungra í stjórnmálaflokkunum? Hefur hann gert tilraun til að sækja ættarmót sér alls óskyldra? Við skulum vona að svo sé ekki. Allir þessir aðilar hafa nefnilega ákveðið að vera án Tryggva við hin ýmsu tilefni og Tryggvi á að sjálfsögðu enga kröfu um að vera tekinn í hópinn. Ef að ákveðnir einstaklingar vilja hittast í sérstökum félögum, klúbbum eða við aðrar aðstæður er það þeirra mál. Á meðan ríkisvaldinu er ekki beitt til að útiloka menn frá þátttöku er ekkert að því að ákveðnir aðildar hittist í lokuðum hópi. Jafnvel þótt tilefnið sé ekki merkilegra en almennt tippaleysi.