Helgarsprokið 21. september 1997

264. tbl. 1. árg.
Stjórnmálamenn og embættismenn nota ýmis ráð til að hafa vit borgurunum. Ein leiðin er sú, sem reynd hefur verið í kommúnistaríkjumAustur-Evrópu og Asíu, en hún felur í sér að allt vald, bæði pólítískt og efnahagslegt, er fært til ríkisins. Þjóðnýting af þessu tagi gengur út á, að enginn eigi annarra kosta völ en að hegða sér eins og ríkið vill þannig að allt þjóðfélagið breytist í þrælabúðir.

Önnur leið er fólgin í því að leggja háa skatta á fyrirtæki og heimili og ráðstafa peningunum síðan með þeim hætti, sem ráðamönnum ríkisins þóknast. Frelsisskerðingin með þessari aðferð er ekki jafn víðtæk og felst í þjóðnýtingarleiðinni, en hún er samt umtalsverð. Í þeim Evrópu og Ameríku þar sem þessi leið hefur verið farin (Norðurlöndin eru trúlega „besta” dæmið), hafa samt sem áður komið fram neikvæð áhrif, sem í sumu minna á ástandið í kommúnistaríkjunum. Þannig hefur skattheimta dregið úr hvatanum fyrir fólk og fyrirtæki til að standa sig vel, með þeim afleiðingum að arðsemi atvinnurekstrarins minnkar, og stór hluti þjóðarinnar verður óvinnufær og háður bótum af ýmsu tagi.

Þriðja leiðin sem stjórnmálamenn og embættismenn geta farið til að hafa áhrif á hegðun og athafnir borgaranna er að setja strangar reglur um hin ólíku svið mannlífsins og koma á fót eftirlitsstofnunum til að tryggja að reglunum sé fylgt. Ríkið tekur þá ekki beinlínis peninga af borgurunum til að nota til framkvæma áhugamál stjórnmálamannanna, heldur skyldar borgarana, fyrirtæki og einstaklinga, til að framkvæma þessi áhugamál. Hér er auðvitað um að ræða jafn mikla áþján fyrir borgarana, en kúgunin sem í þessu felst er hins vegar ekki eins sýnileg og bein skattheimta. Um þetta vandamál er fjallað ítarlega í grein í nýjasta tölublaði Stefnis, tímarits ungra sjálfstæðismanna. Þar fjallar Birgir Ármannsson, lögfræðingur Verslunarráðs, um útþenslu reglugerðaríkisins og eftirlitsstarfsemi hins opinbera.

Það er ekki hlaupið að því að mæla hversu hratt reglugerðaríkið hefur þanist út. Til þess má vafalaust nota mjög margar aðferðir. Í B-deild Stjórnartíðinda eru birtar nýjar reglugerðir og önnur stjórnvaldsfyrirmæli. VEF/ÞJÓÐVILJINN hefur tekið saman hver blaðsíðufjöldi B-deildar Stjórnartíðinda hefur verið á hverju ári frá 1944. Eins og sjá má á grafinu hér að neðan var umfangið nokkuð stöðugt frá 1944 til 1970 eða um 500 síður á ári. Frá 1970 hefur svo sigið verulega á ógæfuhliðina og blaðsíðufjöldinn aldrei farið niður fyrir 1.000 síður á ári og stökk jafnvel yfir 2.500 síður árið 1994. Þessi mæliaðferð segir að sjálfsögðu ekki alla söguna en hún er sennilega ekki verri en hver önnur.