Föstudagur 12. september 1997

255. tbl. 1. árg.
Bjartsýnir menn leyfa sér loks að vona…
að á næstu árum verði atkvæðisréttur landsmanna jafnaður og það hróplega ranglæti afnumið, að sumir hafi margfaldan rétt á við aðra í kosningum. Ástæðan er sú að forsætisráðherra hefur sett saman nefnd sem skipuð er mönnum úr öllum þingflokkum og á að skila tillögum um breytta kjördæmaskipan fyrir næstu lok kjörtímabilsins. Þeir sem eru síður bjartsýnir óttast að þetta verði ekki að veruleika í bráð, enda er hætt við að þeir sem eru aðeins hlynntir jöfnun atkvæðisréttar í orði kveðnu muni hengja sig í útfærsluatriði eða jafnvel tæknileg smáatriði og málið muni ekki ná í gegn. Formaður Alþýðuflokksins sér t.a.m. strax tormerki á því að fara aðra leið en þá að gera allt landið að einu kjördæmi og sjálfsagt mun Framsóknarflokkurinn vilja halda í landsbyggðarkjördæmin. En fjölmiðlar landsins, þ.á.m. Vef-Þjóðviljinn, munu fylgjast grannt með nefndarstarfinu og reyna þannig að koma í veg fyrir að þetta réttlætismál verði þrasinu og hagsmunapotinu að bráð.
Á jöfnun atkvæðisréttar er hins vegar önnur hlið sem sjaldan er til umræðu en það er hvort það sé eftirsóknarvert fyrir kjördæmi að hafa hlutfallslega marga þingmenn. Ef marka má byggðaþróun síðustu ára hafa landsmenn verið á harðahlaupum á brott úr þeim kjördæmum sem flesta þingmenn hafa. Þar sem flestir þingmenn eru hafa ríkisafskiptin líka verið mest. Þar hafa flestir þingmenn viljað „ gera eitthvað“ fyrir íbúana. Ef íbúar í Reykjavík og Reykjanesi fengju fleiri þingmenn yrðu fleiri gæluverkefni í þessum kjördæmum. Fleiri íbúar eyddu tíma sínum þar með í óarðbær verkefni á vegum hins opinbera í stað þess að vinna að arðbærum verkefnum sem er eina vitið þegar til lengri tíma er litið.