Fimmtudagur 11. september 1997

254. tbl. 1. árg.
Það var nöturlegt að horfa á fréttir í gær af stofnfundum…
nokkurra hlutafélaga í eigu ríkisins. Þar voru mættir fulltrúar helstu stjórnmálaflokka og hagsmunasamtaka og skiptu umráðum yfir góssinu á milli sín í svona svipuðum hlutföllum og verið hefur. Þrátt fyrir að ríkisbönkunum og atvinnuvegasjóðunum hafi nú verið breytt í hlutafélög er lykilatriðið en ófrágengið þ.e. að selja þessi hlutafélög einstaklingum sem finna til ábyrgðar við stjórnun fyrirtækjanna vegna þess fjár sem þeir halda þar til haga. Fulltrúar hagsmunasamtaka og stjórnmálaflokka í stjórnum þessara ríkishlutafélaga eiga engra persónulegra hagsmuna að gæta í rekstri fyrirtækjanna. Og eins og sagt var þá fara menn betur með eigið fé en annarra.

Flestir hafa fengið svonefnda trúboða…
í heimsókn. Oftast eru þetta viðkunnalegir náungar sem vilja fá tækifæri til að koma sínum sjónarmiðum á framfæri í nokkrar mínútur. Af og til ber þó að garði öllu þröngsýnni menn sem telja sig hafa fundið sannleikann og svör við öllum lífsins gátum. Svörin fara raunar ekki eftir spurningunni heldur eru þau eitt og hið sama, sama hver spurningin er. Á kaffihúsum borgarinnar hafa verið nokkrir trúboðar af þessari hvimleiðu gerð undanfarin ár. Þá má þekkja úr á barmmerkjum með regnboga eða sól. En sólin merkir að stúdentar við Háskóla Íslands greiða þeim laun en regnboginn að útsvarsgreiðendur í Reykjavík borga brúsann. Hinn heilagi sannleikur hjá þessum trúboðum er sameining félagshyggjuaflanna. Sameining félagshyggjuaflanna mun ekki aðeins vera lækning á persónulegum vandræðum áttavilltra þingmanna á borð við Ágúst Einarsson og Jóhönnu Sigurðardóttur heldur mun hún vera lausn á öllum vandræðum sem plaga þjóðina. Síðast en ekki síst mun hún samkvæmt kenningunni auka líkurnar á því að allir landsmenn fái að greiða trúboðunum laun. AMEN OG SAMEIN.