Helgarsprokið 17. ágúst 1997

229. tbl. 1. árg.

Á fjölmiðlasíðu Dags-Tímans síðastliðinn þriðjudag er grein um þáttinn Þjóðbrautina…
á Bylgjunni. Kemur þar fram að þátturinn hafi fengið liðsaukann Davíð Þ. Jónsson, vinsældir þáttarins fari vaxandi og þar sé fjallað ítarlega um ýmis mál. Er ekki annað að skilja en þetta sé hinn allra besti þáttur. Og þetta virðist vera útbreidd skoðun því á fjölmiðlasíðu DV sama dag er orðrétt sama grein um auknar vinsældir og ítarlega umfjöllun Þjóðbrautarinnar! Hér kemur þrennt til greina. Í fyrsta lagi, og það finnst Vef-Þjóðviljanum líklegast, getur verið að á sama tíma hafi tveimur blaðamönnum, öðrum á Degi-Tímanum og hinum á DV, dottið í hug nákvæmlega sama greinin. Í öðru lagi getur vitaskuld verið að á þeim mínútum sem líða frá því Dagur-Tíminn kemur úr prentun og þar til DV fer í prentun hafi einhver blaðamaður á DV ákveðið að stela greininni úr Degi-Tímanum og birta hana í DV, og í þriðja lagi, og því trúir Vef-Þjóðviljinn síst, þá getur verið að greinin um ágæti Þjóðbrautarinnar sé komin frá… Þjóðbrautinni!