Mánudagur 18. ágúst 1997

230. tbl. 1. árg.

Furðulegt mál er nú til umfjöllunar innan…
Háskóla Íslands en svo virðist sem háskólaráð hafi hafnað tilboði félagsins Samtök um betri háskóla í rekstur nokkurra þjónustuapparata sem Stúdentaráð hefur rekið að undanförnu. Tilboðinu var hafnað þrátt fyrir að skólinn gæti sparað nokkrar milljónir á því að semja við hið nýja félag. Forsvarsmenn skólans hafa undanfarin ár barmað sér mjög yfir peningaleysi en nú geta þeir allt í einu hent milljónum út um gluggann. Hvað kemur til? Unnu þeir í Happdrætti háskólans?

Annað ekki síður undarlegt mál er nýleg ályktun Stúdentaráðs…
gegn hugmyndum um skólagjöld. Stúdentaráð hefur nefnilega alltaf verið fremst í flokki þeirra sem vilja að menn greiði gjald til þess að geta stundað nám við Háskóla Íslands. En gjaldið má bara ekki renna til þess að bæta aðstöðuna í skólanum heldur verður það að renna til Stúdentaráðs og hverfa þar í laun og sporslur handa stúdentapólitíkusunum.