Laugardagur 16. ágúst 1997

228. tbl. 1. árg.

Skipulagsbreytingar hjá Ríkisútvarpinu…
virðast vera að verða árviss viðburður. Að minnsta kosti er nógu oft og mikið rætt um margs konar breytingar á stofnuninni. Morgunblaðið birti þann 13. ágúst ítarlega fréttaskýringu um nýjustu afurð nefndarstarfa innan útvarpsins, en þar er um að ræða tillögur um breytingar á stjórnskipulagi, sem eiga að leiða til betri rekstrar stofnunarinnar. Ekki er ástæða til þess að gagnrýna stjórnendur ríkisstofnunar fyrir að leita leiða til að ná fram sparnaði í rekstri. Það er auðvitað þeirra hlutverk. Hins vegar hljóta frjálslyndir menn að sakna þess að í umfjöllun um þessar skipulagsbreytingar er ekki einu orði vikið að hugsanlegum breytingum á eignarhaldi þessarar stofnunar. Það er með öðrum orðum ekki verið að ræða þann möguleika á vettvangi stjórnsýslunnar, í menntamálaráðuneyti eða Ríkisútvarpinu sjálfu, að einkaaðilar taki við rekstri stofnunarinnar, að hluta eða í heild.

Þetta er að sjálfsögðu óviðunandi. Ríkisútvarpið er umsvifamikið fjölmiðlafyrirtæki,…
sem á í harðri samkeppni við önnur fyrirtæki á því sviði. Ekki verður séð að neinn grundvallarmunur sé á starfsemi Rásar 2 og annarra útvarpsstöðva, sem senda út léttmeti í tali og tónum. Þá virðist Stöð 2 bjóða upp á flest það sem Ríkissjónvarpið býður upp á og fleira til. Það er helst Rás 1 sem hefur einhverja sérstöðu, en þó hefur dregið úr sérstöðunni enda hafa til dæmis tiltölulega léttir rabbþættir, morgunþættir og síðdegisþættir, fengið sífellt meira rúm í dagskránni á undanförnum misserum. Og því má ekki gleyma að aukið svigrúm fyrir svonefnda menningardagskrá myndi skapast ef Rás 1 væri seld eða lögð niður. Ekki verður því um það deilt, að RÚV er í samkeppni við önnur fyrirtæki í útvarps- og sjónvarpsrekstri. Þessi samkeppni er afar ójöfn, þar sem RÚV fær stóran hluta tekna sinna með svonefndu afnotagjaldi, sem í raun er sérstakur skattur, sem lagður er á eigendur útvarps- og sjónvarpsviðtækja. Starfsemin er því stórlega niðurgreidd.

Mikilvægt er að afnema þá mismunun, sem í þessu fyrirkomulagi felst,…
og hefja þegar undirbúning einkavæðingar, enda verður ekki séð að nein ástæða sé til þess að ríkið standi í rekstri á þessu sviði frekar en annars staðar. Hugmyndir hafa komið upp um að skipta stofnuninni í þrennt, Rás 1, Rás 2 og Sjónvarpið og selja einkaaðilum hvern hlutann fyrir sig. Þannig mætti hugsa sér að byrja á einkavæðingu Rásar 2, taka síðan fyrir Sjónvarpið og enda loks á Rás 1. Þeir sem helst setja sig upp á móti einkavæðingu RÚV nefna yfirleitt tvenns konar rök máli sínu til stuðnings; annars vegar öryggisrök og hins vegar menningarsjónarmið. Því er haldið fram, að rekstur ríkisútvarps skipti miklu vegna almannavarnasjónarmiða og til að standa vörð um íslenska menningu. Lengi má deila um hvort rök af þessu tagi skipta máli, þegar verið er að fjalla um ríkisrekstur á fyrirtækjum hvort sem þau eiga í samkeppni við einkaaðila eða ekki. Öryggisrökin hafa að vísu verið að falla um sjálf sig á undanförnum misserum, þegar í ljós hefur komið að dreifikerfið Stöðvar 2 hefur staðist betur náttúruhamfarir heldur en dreifikerfi RÚV. Varðandi menningarrökin er niðurstaðan ekki eins ljós og frekar bundin persónulegu mati, en a.m.k. má öllum vera ljóst að þau duga örugglega ekki til að réttlæta ríkisrekstur á Rás 2 og tæplega á Sjónvarpinu. Því ættu jafnvel þjóðlegir menningarvitar að geta fallist á einkavæðingu þessara tveggja hluta fyrirtækisins. Með því væri tveimur markmiðum náð, annars vegar væru ríkisumsvif minnkuð og hins vegar væri verið að koma á eðlilegra samkeppnisumhverfi á fjölmiðlamarkaðnum hér á landi.