Fimmtudagur 31. júlí 1997

212. tbl. 1. árg.

Íslensku stjórnmálaflokkarnir hafa áratugum…
saman haldið úti flokksmálgögnum og sent skattgreiðendum reikningana. Heldur hefur dregið úr þessari útgáfu hin síðari ár en flokkarnir á vinstri vængnum hafa þráast við. Nú sér þó loks fyrir endann á þessari harmsögu. Guðmundur Árni Stefánsson þingmaður telur þó nauðsynlegt að Alþýðuflokkurinn fái sérstakan eftirlitsritstjóra á Dag-Tímann ef flokkurinn hættir útgáfu Alþýðublaðsins. Það má ef til vill benda Guðmundi og öðrum sem eru hræddir um að stefna Alþýðuflokksins eigi sér fáa málsvara á blöðunum á að helst mætti ætla að leiðarar Morgunblaðsins séu skrifaðir á flokkskontór Alþýðuflokksins. Annan daginn skrifar Jón Baldvin Hannibalsson fyrir veiðileyfaskatti og hinn skrifar Ómar Smári Ármannsson gegn þeim skemmtistöðum sem bjóða upp á nektardansa, sem sjálfur félagsmálaráðherra mun hafa staðfest að séu listrænir.

Eins og menn hafa tekið eftir hefur verið einstök…
veðurblíða norðan heiða í allt sumar. Á sama tíma hefur verið hefðbundin súld sunnanlands. Enginn hefur efast um að sólin er sameign mannkyns. Hér er því komið athyglisvert mál fyrir þá sem telja rétt að sem flest sé í sameign (ríkiseign) og ríkið innheimti skatt af þeim sem nýta sér hin sameiginlegu gæði. Akureyingar virðast alltaf fá stærri sólarkvóta en Reykvíkingar og því vart nema sjálfsagt að þeir greiði borgarsjóði Reykjavíkur sanngjarnt gjald fyrir þessa nýtingu á sameigninni sól – svona ef stuðningsmenn veiðileyfaskatts vilja gæta samræmis í málflutningi sínum.