Miðvikudagur 30. júlí 1997

211. tbl. 1. árg.

Stór hluti hinna sjálfskipuðu umhverfisverndarsinna…
er fólk af vinstri væng stjórnmálanna í leit að nýjum málstað eða að skálkaskjóli fyrir gamla málstaðinn. Ekki er óalgengt að þessu fólki þyki rétt að beita ríkisvaldinu til að flytja fé frá þeim sem ríkir eru til hinna sem minna hafa. Mun slík stefna nefnd jafnaðarstefna. Fyrir um þrjátíu árum fór sú krafa að verða áberandi í þessum hópi að „taka þurfi umhverfið fram yfir hagvöxt“. Meginröksemdin fyrir þessu er sú að annars muni komandi kynslóðir ekki njóta sama umhverfis og við gerum. Nú er að vísu erfitt að spyrja ókomnar kynslóðir hvort þær kjósi endilega sama umhverfi og við njótum í dag og jafnvel má telja að meðal komandi kynslóða verði uppi deildar meiningar um það mál. Hitt má telja víst, að rétt eins og við njótum miklu betri efnahagslegra skilyrða en fólk gerði fyrir 30 árum, að ekki sé minnst á skilyrði fólks fyrir 130 árum, þá muni komandi kynslóðir verða ríkari en við erum. Allir efnahagslegir mælikvarðar benda til þess að velmegun muni halda áfram að vaxa. Það blasir því við að þegar vinstri menn og umhverfisverndarsinnar krefjast þess að við hægjum á hagsvexti, að þeir eru að krefjast þess að við rýrum efnahagsleg skilyrði okkar fyrir fólk í framtíðinni sem verður vafalaust betur stætt efnahagslega en við erum. Með öðrum orðum er verið að krefjast þess að við, hin efnaminni, tökum á okkur kostnað fyrir komandi kynslóðir, þ.e. hina sem ríkari verða. Og þar fór jafnaðarstefnan út í veður og vind.

Endurvinnsla er eitt af trúaratriðum umhverfisverndarsinna. Þannig vilja þeir…
endurvinna pappír hvað sem það kostar og hverjar sem afleiðingarnar verða. Hér er umhugsunarefni fyrir umhverfisverndarsinna sem þeir ættu að taka til endurvinnslu:
Endurvinnsla pappírs leiðir til aukins framboðs sem getur leitt til þess að pappírsframleiðendur, sem eru öflugir skógarræktendur, dragi úr framleiðslu og dragi þar með úr plöntun og skógar fari að minnka í stað þess að vaxa. Í dag planta flestir tveimur trjám fyrir hvert sem fellt er til pappírsvinnslu. Við getum rétt eins hugsað okkur að fundin yrði upp aðferð til að endurvinna nautakjöt. Við það myndi nautum vafalaust fækka enda þyrfti færri naut til að anna eftirspurninni. Um leið og við förum hins vegar að eta meira nautakjöt fjölga nautgripabændur í stofnum sínum til að anna aukinni eftirspurn. Kindakjöt er raunar nærtækara dæmi en kindum hefur fækkað töluvert hin síðari ár eftir að dró úr neyslu þess. Til að auka líkurnar á meiri skógrækt er því um að gera að nota sem mest af pappír og neyta allra bragða til að forða honum frá endurvinnslu.