Þriðjudagur 29. júlí 1997

210. tbl. 1. árg.

Tvöfaldur skrípaleikur hefur átt sér stað í fjölmiðlum síðustu daga…
vegna flokksblaðanna. Annars vegar hefur komið til harðra orðaskipta vegna tilrauna stórkratans Ámunda Ámundasonar til að eignast helmingshlut í Helgarpóstinum, sem gefinn hefur verið út á vegum Alþýðubandalagsins undanfarin misseri. Hins vegar hefur verið greint frá áformum Alþýðuflokksins um að hætta útgáfu Alþýðublaðsins og Alþýðubandalagsins um að hætta útgáfu Vikublaðsins.
Atburðarásin við hina meintu sölu á Helgarpóstinum er með miklum ólíkindum. Kunnur baktjaldamaður úr Alþýðuflokki gerir kauptilboð í 49% hlut hlutafélags nokkurs í Helgarpóstinum, en fyrir skömmu kom fram að þetta tiltekna hlutafélag var í eigu Alþýðubandalagsins, þótt því væri leynt fyrir fólki, bæði innan flokks og utan. Alþýðubandalagsmennirnir sem vinna á Helgarpóstinum halda því fram að engin sala hafi átt sér stað og meðan þeir deila hart við flokksbræður sína í stjórn blaðsins kemur stórkratinn Ámundi hvað eftir annað fram í fjölmiðlum, lýsir því yfir að hann sé tekinn við blaðinu og auglýsir eftir ritstjóra og starfsmönnum fyrir blaðið.
Fólkið, sem Ámundi gerði starfstilboð í beinni útsendingu á Stöð 2, hefur ekki áhuga á djobbinu, og raunar kemur líka í ljós að fyrri starfsmenn og eigendur njóta forkaupsréttar að hlutabréfum Alþýðubandalagsins í tvo mánuði. Hins vegar er með öllu óvíst að þeim takist að útvega peninga til kaupanna.

Meðan að á þessu stendur eru „peningamennirnir“, sem eiga Frjálsa fjölmiðlun hf….
að semja við Sighvat Björgvinsson og Margréti Frímannsdóttur um að þau hætti útgáfu blaða sinna Alþýðublaðsins og Vikublaðsins. Þess í stað munu þessir flokkar veita útgáfu Dags-Tímans blessun sína með einhverjum hætti. Þessi frétt hefur fengið mun minni athygli en Helgarpóstsskrípaleikurinn, en á hinn bóginn má halda því fram að hún sé bæði athyglisverðari og afdrifaríkari. Alþýðublaðið og Vikublaðið eru að vísu lítil og oft óvönduð blöð, sem fáir nenna að lesa. Hins vegar hlýtur það að teljast til tíðinda, þegar þeir flokkar, sem lengst hafa þrjóskast við að gefa út málgögn, gera samning við „harðsvíraða kaupsýslumenn“ um að hætta útgáfunni og styðja þess í stað blaðið sem stofnað var við sameiningu tveggja málgagna Framsóknarflokksins. Það skyldi þó aldrei vera að Eyjólfi Sveinssyni og Jóni Ólafssyni væri að takast að sameina vinstri menn á Íslandi með meira afgerandi hætti en Jóhönnu, Sighvat og Margréti gæti nokkurn tímann dreymt um? Það skyldi þó ekki vera að uppákoman í kringum Ámunda og Helgarpóstinn væri reykbomba, sprengd til að beina athyglinni frá þeim raunverulegu fréttum, sem eru nú að gerast í blaðaútgáfu á vinstri vængnum?