Mánudagur 28. júlí 1997

209. tbl. 1. árg.

Gylfi Magnússon skrifar skemmtilega grein…
í Morgunblaðið í gær. Þar bendir hann á að sennilega megum við þakka velferðarkerfinu og þeirri skattheimtu sem því fylgir að fólk er enn að baksa við að brugga vín á baðherbergjum „Vin de Toilet“, smíða eigin grindverk og ýmis önnur verk sem heppilegast væri að fagmenn sinntu þ.e ef við viljum nýta tíma okkar sem best. Gefum Gylfa orðið: „Nær allir skattar reka fleyg á milli ábata einstaklings af ákvörðun sem hann tekur og ábata þjóðfélagsins sem heildar af ákvörðuninni. Útkoman getur hæglega orðið sú að einstaklingar taka ákvarðanir sem koma þeim vel en öðrum illa. Tölvunarfræðingur sem ákveður að taka sér frí úr vinnunni til þess að smíða grindverk utan um húsið sitt frekar en að fá smið sparar sér hugsanlega fé þótt kostnaður þjóðfélagsins sé meiri fyrir vikið. Tölvunarfræðingurinn lækkar við þetta bæði tekju- og virðisaukaskattsgreiðslur sínar en fyrir vikið verður annaðhvort að draga úr þjónustu ríkisins eða leggja hærri skatta á einhverja aðra til að vega upp á móti þessu. Sárir þumlar tölvunarfræðingsins eru hluti af skattbyrði hans og þjóðfélagið situr uppi með dýrt grindverk og kannski eilítið skakkt.“
Og í lok greinarinnar segir Gylfi: „Því eru þó takmörk sett hve mikils fjár er hægt að afla með sköttum á vörur sem liggja vel við höggi. Fyrir vikið verða ríki eins og Ísland þar sem ákveðið hefur verið að hafa umsvifamikið velferðarkerfi að leggja á háa almenna skatta eins og tekjuskatt og virðisaukaskatt. Það er vitaskuld eilíft deilumál hve þéttriðið net velferðarinnar á að vera en ekki sakar að hafa í huga að hver króna sem til þess rennur kostar þjóðfélagið mun meira en krónu. Velferðarkerfið er þannig greitt með dýrustu krónum Íslands.“


Að gefnu tilefni skal það tekið fram að Andríki mun hvorki hefja útgáfu VEF//ALÞÝÐU//BLAÐSINS né VEF//VIKU//BLAÐSINS.