Núverandi forseti Íslands, Ólafur Ragnar,…
er þessa dagana í Vesturheimi og hefur þar potað sér í viðtöl við hina háttsettustu menn. Verður honum þar, að eigin sögn, tíðrætt um samstarf lýðræðisþjóða og þróun NATO. Frá þessu er greint í fjölmiðlum landsins. Þeim láist hins vegar að rifja það upp að ekki eru mörg misseri síðan sami Ólafur Ragnar (að vísu áður en hann var endurmarkaðssettur) var foringi þess flokks sem alla tíð hefur barist harkalega gegn samstarfi lýðræðisríkjanna, gegn varnarliði Bandaríkjamanna hérlendis og dekraði við Sovétríkin meðan þau voru og hétu. Á síðasta áratugi barðist Ólafur undir merkjum friðarhreyfinga sem nutu stuðnings Sovétríkjanna og áttu sér þann draum heitastan að afvopna lýðræðisríkin í Evrópu á meðan ráðstjórnarríkin bættu herstyrk sinn. Ólafur lét vitaskuld ekki sitt eftir liggja þegar Keflavíkurgöngur voru annars vegar og sagði m.a. í tilefni af slíkri göngu í byrjun síðasta áratugar: Gangan nú var bæði framhald af áratuga baráttu okkar gegn hernum og staðfesting á samstöðu okkar með hinum víðtæku friðarhreyfingum sem komið hafa fram í fjölmörgum löndum Evrópu síðustu mánuði. Það var ekki fyrr en nýlega, þegar Ólafur sá að hann tapaði á því að halda fram þessari skoðun sinni, að hann fór að tala í aðra átt og hætti að beita sér gegn samstarfi lýðræðisríkjanna. Gagnvart þeim sem alla tíð hafa þurft að berjast gegn áróðri manna á borð við Ólaf og þurft að hafa mikið fyrir því að Ísland sé varið land sem starfar með lýðræðisríkjunum er tal Ólafs vestan hafs nú óþolandi móðgun.
Talið um samkeppnisstöðu þjóða…
er umtalefni í dálkinum Ranghugmyndir í ársfjórðungsritinu Economic Affairs. Höfundurinn segir stjórnmálamenn oft ræða um að bæta samkeppnishæfi landa og hugmyndin fari einhvern veginn út í það að gera löndin þannig að þau þurfi ekki að eiga nein viðskipti við önnur ríki. Hann telur tal um samkeppni á milli landa misvísandi og bendir á, eins og David Ricardo gerði fyrir meira en 150 árum, að viðskipti landa á milli gagnast báðum löndum hver sem staða þeirra er. Hann bætir þó við að ef umræður um samkeppnishæfni snúist um það að auka framleiðni þá sé það góðra gjalda vert. En hugmyndin um að þjóðir eigi í samkeppni getur að hans mati leitt til skaðlegra aðgerða af hálfu hins opinbera. Við Íslendingar þurfum ekki annað en að líta til hræðslu margra við að útlendingar yfirtaki landbúnaðar- eða fjármagnsmarkaðinn til að sjá hversu skaðlegar þessar ranghugmyndir um samkeppni milli landa geta verið.