Þriðjudagur 22. júlí 1997

203. tbl. 1. árg.

Evrópusambandið hyggur nú á róttæka endurskoðun…
á landbúnaðarstefnu sinni með það að markmiði að draga úr niðurgreiðslum og ríkisstyrkjum. Samkvæmt fyrirliggjandi tillögum verða ríkisstyrkir til bænda lækkaðir um 20% á korni, 10% á mjólk og 30% á nautakjöti. Þessar fyrirætlanir ESB ættu að verða íslenskum stjórnvöldum hvatning til að endurskoða landbúnað hérlendis. Nokkur niðurskurður hefur orðið í ríkisstyrkjum til landbúnaðar á síðustu árum en stjórnvöld neyða skattgreiðendur enn til að greiða um átta milljarða beint til þessarar atvinnugreinar og líklega annað eins óbeint með því að banna eða ofurtolla innflutning á matvælum. Þrátt fyrir að nokkuð hafi dregið úr fjáraustrinum í íslenskan landbúnað á undanförnum árum hefur kerfið þó lítið breyst. Markaðsöflin hafa enn ekki fengið að njóta sín í þessari atvinnugrein en slíkt hefði án efa sömu þróun í för með sér og í öðrum atvinnugreinum; einingunum, þ.e. bóndabæum, myndi fækka en þeir jafnframt stækka og þannig myndi hagkvæmni aukast. Skattgreiðendur hljóta að gera þá kröfu að stjórnvöld hætti að skipta sér af landbúnaði og gefi innflutning landbúnaðarvöru frjálsan. Ef vilji er á meðal einhverra Íslendinga til að styrkja óhagkvæman íslenskan landbúnað væri þeim að sjálfsögðu frjálst að gera það áfram með því að greiða hærra verð fyrir vöruna við búðarkassann eða hreinlega að senda uppáhaldsbóndanum tékka.

Ungir vinstri menn hafa fundið sér nýtt baráttumál…
og það ekki af verri endanum. Heimir Már Pétursson, framkvæmdastjóri Alþýðubandalagsins, skrifar grein í DV í vikunni um nauðsyn þess að þegar yrði hafist handa um byggingu nýs Alþingishúss en hann telur það greinilega vera helsta forgangsmál íslenskra stjórnmála. Ekki þarf að efast um að kostnaður við slíkt hús yrði margir milljarðar króna. Þá myndi starfsaðstaða þingmanna eflaust batna til muna og þeir því vera í aðstöðu til að samþykkja tvöfalt til þrefalt fleiri lög en þeir komast yfir nú.