Fimmtudagur 24. júlí 1997

205. tbl. 1. árg.

Lúpínuræktun er ódýrasti kosturinn…
til að uppfylla skilyrði um bindingu koldíoxíðs vegna aukinnar stóriðju hérlendis, að mati Dags-Tímans í gær. Blaðið reiknar út að kostnaðurinn yrði „aðeins um 9 milljónir á ári fyrir heilt álver“. Nú er umdeilt hvort ástæða er til að hafa áhyggjur af auknu koldíoxíði í andrúmsloftinu, en hitt er ljóst að hægt væri að fara ódýrari leið en Dagur-Tíminn bendir á. Hún er að lækka niðurgreiðslur til rolluframleiðslu og minnka þannig ofbeit og þar með að auka gróðurlendi.

Birgir Ármannsson lögfræðingur Verslunarráðs…
hefur að undanförnu bent á það í fjölmiðlum að kostnaður sem hið opinbera leggur á fyrirtæki landsins undir merkjum eftirlits sé orðinn óeðlilega hár og hafi að minnsta kosti hjá R-listanum í Reykjavík orðið svo mikill að fyrir honum sé engin lagastoð. Birgir minnir á að fyrir nokkrum árum lagði forsætisráðherra fram frumvarp sem takmarkað gæti útþenslu eftirlitsiðnaðar hins opinbera, en það hafi ekki enn fengið afgreiðslu. Hvetur Birgir til þess að dustað verði af því rykið enda sé ljóst að það gæti orðið til bóta.